Þröstur Haraldsson

45 ár eru nokkuð langur tími. Um síðustu áramót voru liðin 46 ár frá því ég settist fyrir framan svarta, austur-þýska ritvél af gerðinni Erica á ritstjórnarskrifstofu Þjóðviljans, nýráðinn þangað sem blaðamaður. Þar sat ég í raun fram á haust 2017, en Erican hvarf því miður frekar snemma. Þetta var besta ritvél sem ég átti og Þjóðviljinn mótaði mig sem blaðamann.

Þarna settist ég inn á flokksblað og tilheyrði kerfi sem fyrir löngu er liðið undir lok (þótt einhverjir ritstjórar í úthverfum Reykjavíkur hafi ekki tekið eftir því). Satt að segja veit ég ekki hvort hvarf flokksblaðanna var einhlítt framfaraspor. Þau höfðu sína kosti en hlutu að sjálfsögðu að verða undir í því gjörningaveðri sem þróun fjölmiðla og samfélags hefur mátt þola. Eitt lítið dæmi: Ég var búinn að starfa í um tíu ár þegar faxtækin ruddu sér braut inn á ritstjórnir landsins. Nú eru þau löngu horfin og allt komið upp í ský. Annað dæmi: Af þeim 14 fjölmiðlum sem hér eiga fulltrúa eru sex hættir að koma út og einn orðinn að rafrænu fréttabréfi.

Kollega minn Einar Már Jónsson Megasarbróðir kynnti mig snemma fyrir hugtakinu observateur sem honum var tamt í frönsku. Síðan hefur mér fundist það lýsa best stöðu minni og hlutverki: Ég er alltaf á vaktinni, fylgist með því sem fram fer í heiminum og skila misreglulegum skýrslum um það sem fyrir augu og eyru ber. Á þessari heimasíðu eru um það bil 100 dæmi um það sem ég sá og heyrði í öll þessi ár.

Greinar á íslensku

Þótt ég hafi byrjað á Þjóðviljanum hefur leið mín legið víða og mörg blöð, tímarit og nú síðast vefsíður birt skrif mín. Hér má sjá um 70 greinar úr 14 fjölmiðlum af ýmsum gerðum. Ég hóf ferilinn á dagblaði, en vann síðan töluvert á vikublöðum og síðustu árin voru það fagblöð sem ég skrifaði mest fyrir, málgögn stéttarfélaga bænda, sjómanna, lækna og iðnaðarmanna.

Umfjöllunarefnin eru að sama skapi fjölbreytt og viðmælendur margir. Ég hef státað af því að vera það sem á ensku er kallað „all-round“ blaðamaður sem getur skrifað um allt en er ekki sérhæfður í neinni grein. Málið er að geta spurt réttu spurninganna þangað til maður skilur svörin.

Artikler på dansk

I efteråret 1978 flyttede jeg til Århus sammen med min daværende kone og tre stedbørn. Vi boede der i knap tre år, hvoraf jeg arbejdede på aktivistavisen Århus Folkeblad det første år. Der begyndte jeg at skrive artikler på dansk. Derefter bragte Dagbladet Informatíon en række af mine artikler om islandske forhold indtil 1981. Godt tyve år senere tog jeg tråden op og begyndte at skrive om islandsk politik, kultur og hverdag for Weekendavisen. Det stod på fra 2003-15. En overgang skrev jeg også artikler om efteruddannelse for en nordisk webside: NVL/DialogWEB.

Haustið 1978 flutti ég til Árósa í Danmörku ásamt fjölskyldu og bjó þar í tæp þrjú ár. Fyrsta árið starfaði ég hjá vinstriaktívistablaði, Århus Folkeblad, og gerði þar fyrstu tilraunirnar til að skrifa á dönsku. Þær gengu það vel að ég bauð Dagblaðinu Informatíon greinar um íslensk málefni sem þau birtu í rúmlega tvö ár. Svo varð langt hlé en árið 2003 tók ég upp þráðinn og sendi nú greinarnar til Weekendavisen sem er vikublað á vegum Berlingske samsteypunnar. Loks skrifaði ég um skeið fyrir norræna vefsíðu um fullorðinsfræðslu: NVL/DialogWEB.

Útvarpsþættir

Einhvern tímann á áttunda áratug síðustu aldar gerði ég nokkra útvarpsþætti um bílismann fyrir Ríkisútvarpið í félagi við aðra. Ekki varð framhald á því fyrr en á árunum 1990-1995 þegar ég bjó á Dalvík að ég flutti nokkrar fréttir þaðan, meðal annars um knattspyrnu og kosningar. Eftir að ég flutti suður sótti ég um stöður á RÚV en fékk ekki, þáverandi formaður Útvarpsráðs var þeirrar skoðunar að ég gæti bara sagt „fréttir frá Kúbu“. Ég fékk þó að stjórna Vikulokunum um tveggja og hálfs árs skeið og leysa af í þættinum Samfélagið í nærmynd. Svo hef ég gert slatta af þáttum í lausamennsku. Þar hef ég fjallað um áhrif EES-samningsins og alþjóðavæðingarinnar á Ísland, landbúnað, grunnskólann, byggðastefnu og fleira. Hér eru þrjú sýnishorn af þáttagerð minni sem hægt er að hlusta á. Þáttaraðirnar bera heitin Klofin þjóð en söngelsk, Lækka Pólverjar launin okkar? og Enginn hissa þótt hundurinn fari að tala. Í þeirri síðastnefndu fjalla ég um sagnalist og spjalla við sagnamenn á Íslandi og Norðurlöndunum. Í fyrstnefnda þættinum segi ég frá heimsókn minni til Lettlands vorið 2003 en í þáttunum um Pólland segir frá heimsókn minni þangað haustið 2004, örfáum mánuðum eftir að Pólverjar gengu í Evrópusambandið.