Dómkórinn flytur Missa brevis eftir ungverska tónskáldið og uppeldisfrömuðinn Zoltán Kodály

Það var ekki bara vofa kommúnismans sem fór á stúfana á síðari hluta nítjándu aldar. Þetta var líka tími þjóðernisvakningar um alla Evrópu sem snerti að sjálfsögðu allar þjóðir sem lutu erlendu valdi. Meðal þeirra þjóða voru Ungverjar og rétt eins og Íslendingar áttu þeir sína aldamótakynslóð sem hélt þjóðerninu á lofti og ræktaði allt það sem þjóðlegt gat talist. Í þeim hópi voru tvö tónskáld á svipuðu reiki, Béla Bartók og Zoltán Kodály (borið fram Kodaj). Á Tónlistardögum Dómkirkjunnar verður að þessu sinni flutt eitt af helstu kirkjutónverkum þess síðarnefnda: Missa brevis, hefðbundin messa fyrir orgel, kór og einsöngvara.

Báðir eru þeir fæddir í ungverskum sveitaþorpum, Bartók 1881 og Kodály ári síðar, og drógu dám af uppruna sínum. Eftir tónlistarnám lögðu báðir fyrir sig þjóðlagasöfnun sem var eins konar eldskírn allra tónskálda á þessum árum. Þjóðlögin mörkuðu tónlistarferil og tónsmíðar beggja en Kodály hélt tryggð við þjóðlagaarfinn alla sína tíð. Raunar markaði sá arfur allar hans tónsmíðar nema kannski síst kirkjutónlistina þar sem hann var undir greinilegum áhrifum evrópskra tónskálda.

Sjötíu ára ferill

Um Kodály hefur verið sagt að fáir listamenn 20. aldar hafi haft eins mikil áhrif á jafnmörgum sviðum og hann. Auk þess að safna þjóðlögum og skrá þau gaf hann út mörg þjóðlagasöfn og skrifaði lærðar ritgerðir um tónlistararf Ungverja. Hann kenndi við Tónlistarakademíuna í Búdapest frá 1907 og lagði grunn að merkri stefnu í tónlistaruppeldi sem hann bar gæfu til að hrinda í framkvæmd í Ungverjalandi. 

Þá er ótalið framlag hans til tónlistarinnar sem slíkrar en leitun mun að tónskáldum sem eiga sér lengri feril. Hann var byrjaður að semja tónlist á barnsaldri og elstu ópusarnir í safni hans eru frá árinu 1897 þegar hann var fjórtán ára. Síðasta verkið sem hann sendi frá sér er frá 1966 – ári áður en hann lést – svo ferillinn spannar rétt tæp sjötíu ár. 

Tónlist hans er af ýmsum toga, allt frá smæstu kammerverkum upp í óperur og verk fyrir kór og hljómsveit. Mestu stórvirki hans eru flest frá árunum milli stríða og þekktast er eflaust svítan um Háry János sem upphaflega var samin sem gamanópera og frumflutt árið 1926. Af öðrum þekktum verkum má nefna hljómsveitarverk eða dansa sem kenndir eru við Marosszék og Galanta og óratorían Psalmus hungaricusen þau verk eru einnig samin á þriðja áratugi síðustu aldar.

In tempore belli

Verkið sem Dómkórinn flytur í Neskirkju annan sunnudag er hins vegar samið á stríðsárunum. Kodály komst að sjálfsögðu ekki frekar en aðrir menn í hans stöðu undan því að taka afstöðu í helsta hildarleik síðustu aldar. Framan af stríðsárunum starfaði hann við kennslu og tónsmíðar en þegar djöfulgangur heimsins jókst lagði hann sitt af mörkum til að forða góðu fólki undan ofsóknum nasista. 

Þar kom að honum var ekki lengur vært og leitaði hann þá skjóls ásamt eiginkonu sinni í kjallara klausturs í Búdapest. Þar leyndist hann frá 1943 til stríðsloka og hélt áfram að semja tónlist. Í klaustrinu lauk hann meðal annars við Missa brevissem frumflutt var á laun í búningsherbergjum óperuhússins í Búdapest meðan barist var um borgina. Undirtitill verksins er reyndar In tempore belli– á tímum stríðs – og á vel við.

Missa breviser byggð á eldra orgelverki en hún er samin fyrir þrjá einsöngvara, orgel og kór. Formið er hefðbundið að því leyti að verkið skiptist í sex kafla eins og messur gera yfirleitt – Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus, Benedictus og Agnus Dei – en auk þess samdi hann forleik og eftirspil fyrir orgel eins og algengt var á miðöldum. Steingrímur Þórhallsson mun flytja forleikinn en eftirspilinu verður sleppt á tónleikum Dómkórsins.

Kunnáttumenn í tónlist þykjast merkja töluverð áhrif frá Franz Liszt á messuna, einkum í fyrsta og síðasta kaflanum. Áhrif þjóðlegrar ungverskrar tónlistar eru minni í þessu verki en flestum öðrum sem Kodály samdi en þess ber að geta að tónskáldið fór ungur í ferðalag til Berlínar og Parísar. Á síðarnefnda staðnum kynntist hann tónskáldinu Debussy sem hann hreifst mjög af og eru áhrif frá honum víða merkjanleg í verkum Kodálys.

Samsöngur er lykillinn

Eins og áður segir var hann alla tíð trúr þjóðlagaarfi Ungverja en vann úr honum á nútímalegan hátt. Það er því engin furða þótt menn eigi erfitt með að draga Kodály í dilka. Hann stóð föstum fótum í þjóðlegri hefð ungverskrar bændamenningar en var um leið óhræddur við að takast á við ögranir módernismans og var í engum vandræðum með að sameina þessa ólíku strauma.

Kórsöngur var að mati Kodály afar mikilvægur í tónlistaruppeldi þjóðar og öflugt kórastarf stuðlaði jafnt að því að ala upp nýjar kynslóðir og viðhalda tóneyra þeirra eldri. Hann ferðaðist um landið og reyndi að ýta undir kórastarf í krafti þeirrar sannfæringar að samsöngur væri mun traustari grunnur undir öflugu tónlistarlífi en kunnátta á hljóðfæri. Ungverska þjóðin og stjórnvöld tóku þessum kenningum vel og að loknu stríði urðu þær leiðarljós í skólastarfi Ungverjalands. 

„Takmarkið með þessu starfi er að auka skilning nemandans og ást á hinum sígildu meistaraverkum tónbókmenntanna … Þær standa þjóðlögunum miklu nær en almennt er talið sem sést best á því að megineinkenni þjóðlagasöngs eru bein tjáning og hrein form,“ segir á einum stað í ritum Kodálys. Í þessu felst kjarninn í öllu starfi þessa merka tónlistarmanns: að sameina nútímalega listræna sköpun þeirri tónlistarhefð sem þjóðirnar hafa ræktað með sér um aldir.

Rétt fyrir andlát sitt árið 1967 sagðist Kodály óttast að vélvæðingin í heiminum væri að „leiða okkur inn á braut sem endar með því að maðurinn breytist í vél; ekkert annað en andi söngsins getur forðað okkur frá þeim örlögum“. Það er tími til kominn að kynna verk þessa ágæta listamanns sem lítið hafa heyrst hér á landi, ekki síst vegna þess að fegurri tónlist er vandfundin.

Höfundur er blaðamaður.