Fjórða bréf af bökkum Maas

Það eru allir alltaf að bera eitthvað saman. Steinunn er til dæmis að bera saman aðstöðu fólks til að stunda atvinnu samtímis því að ala upp börn í Hollandi og á Íslandi. Gulli Ara bar saman Dalvík og París. Ég hef ekki enn fundið neinn flöt á að bera saman Dalvík og Maastricht og ekki nenni ég að bera saman veðrið eða verðið hér og í Reykjavík enda hræddur um að slíkur samanburður yrði óhagstæður fyrir minn ágæta fæðingarstað. 

Eftir allnokkra umhugsun datt ég loksins niður á heppilega lausn á þessari samanburðarklemmu: Ég ber saman Holland og Belgíu. Heima sér hvort eð er enginn neinn mun á þessum löndum, þetta er allt sama flatneskjan. En þar sem við stöndum svo að segja með landamærin í hlaðvarpanum þá sjáum við og finnum ýmsan mun á þessum nágrannaþjóðum sem þó eru að hluta til sama þjóðin. 

Flæmingjarnir í norðurhluta Belgíu tala hollensku (sem þeir kalla að vísu flæmsku) og þegar þeir hitta Vallónana úr suðrinu þá skilja þeir ekki hverjir aðra. Frönskumælandi Vallónar geta ekki lært flæmsku og sérhver Flæmingi með snefil af sjálfsvirðingu neitar að sjálfsögðu að taka sér frönsku í munn. Fyrir vikið eru mestar líkur á því þegar maður frá Liege hittir mann frá Antwerpen þá tali þeir saman á ensku. Því er reyndar haldið fram að það sé einungis tvennt sem haldi belgísku þjóðinni saman: landsliðið í fótbolta og Evrópusambandið.

Spilling og spekúlantar

En þrátt fyrir skyldleika Flæmingja og Hollendinga og þótt landamæri þessara ríkja séu að heita má horfin þá finnur maður mun um leið og komið er yfir þau. Augljósasti munurinn er á húsunum. Í Belgíu sér maður mikið af húsum sem standa auð og eru að grotna niður vegna vanhirðu. Það er að heita má óþekkt fyrirbæri í Hollandi. Hérna megin landamæranna er hver smuga nýtt og reyndar lög sem banna eigendum að láta hús sín standa auð. Þeir sem það gera eiga á hættu að inn í þau flytji hústöku­fólk og við það losna húseigendur ekki svo glatt eins og dæmin sanna.

Sá sem gengur um götur Brussel – sem stundum er kölluð höfuðborg Evrópu – kemur fljótt auga á að þar stendur stór hluti húsa í miðborginni auður. Þetta á ekki síst við um næsta nágrenni Evrópusambandsins þar sem húseigendur eru sagðir bíða eftir því að báknið þenjist út svo þeir geti selt því dýrmætar lóðir undir ný stál- og glerferlíki.

Þetta mun vera lenska í Brussel og þrífst í skjóli úreltra laga sem eru partur af þeirri spillingu sem Belgía er því miður orðin fræg fyrir að endemum. Við hana er ekki gott að eiga því lagabreytingar ganga hægt fyrir sig í landi þar sem öll frumvörp þarf að bera undir hvorki meira né minna en sjö þingdeildir: tvær flæmskar, tvær vallónskar (franskar), tvær þýskar (minnihluti í Austur-Belgíu) og loks þingið í Brussel en borgin er sjálfstæð tvítyngd stjórnsýslueining. 

Skipulagsslys

Og úr því ég nefndi Evrópusambandið þá verður að segjast eins og er að byggingarframkvæmdir þess í Brussel eru alger hneisa. Þar er þessi misserin hrúgað upp kuldalegum og ópersónulegum skrifstofukumböldum, hverjum öðrum ljótari, en í staðinn eru rifin heilu hverfin af gömlum og oft fallegum húsum sem bæjarprýði væri að ef einhverjir spekúlantar væru ekki búnir að láta þau grotna niður.

En það þarf tvo til og borgaryfirvöld í Brussel hafa vissulega leyft bæði Evrópusambandinu og öðrum að vinna stórfelld skemmdarverk á þessari borg. Ég gekk eitt sinn í vetur um miðborgina með innfæddum manni og hann leiddi mig inn í götu sem hann sagði að væri sú elsta í Brussel. Þar sá ég undurfagurt hús, rauðmálað með bindingsverki og stóð á því ártalið 1596. Þetta hús hafði verið gert upp og var mikil prýði að. 

En sama varð ekki sagt um önnur hús í þessari götu. Þarna stóðu nokkur hús í sama stíl og virtust álíka gömul, en við þau hafði ekki verið dekrað lengi. Það vantaði gler í glugga og í raun voru þetta bara útveggir. Á milli þessara gömlu húsa stóðu svo ferhyrndir fúnkiskassar sem greinilega voru byggðir á sjötta eða sjöunda áratugnum, þessum áratugum þegar byggingarmeistarar Evrópu virðast hafa bundist samtökum um að gefa algeran skít í fortíðina og söguna.

Smekkleg dirfska

Svo er hins vegar að sjá sem Hollendingar hafi að mestu sloppið við þetta samsæri byggingarmeistaranna. Raunar fer hrifning mín á hollenskum arkitektúr og viðhorfi Hollendinga til húsbygginga jafnt og þétt vaxandi eftir því sem ég dvel hér lengur og kem víðar. Þeir hlúa vel að gömlum húsum og þegar þeir byggja ný leggja þeir sig fram um að láta þau falla að þeim sem fyrir eru. 

Á hinn bóginn eru þeir ákaflega djarfir í að reyna nýja hluti og hvergi feimnir við að blanda saman gömlu og nýju með smekklegum hætti. Hér í landi hefur ríkt velmegun undanfarin ár eins og víðar og þess sér stað í húsbyggingum. Hér er mikið af nýjum og glæsilegum húsum þar sem hugmyndaflug arkitekta hefur fengið að leika lausum hala. Vitaskuld er ekki allt jafnglæsilegt en ég hef enn ekki gengið fram á nein skipulagsslys í líkingu við þau sem Brussel er full af.

Hér í næsta nágrenni við okkur er verið að reisa nýtt hverfi á rústum mikillar postulíns- og múrsteinsfabrikku sem var farin á hausinn. Borgaryfirvöld réðu einn fremsta arkitekt Hollands til að hafa yfirumsjón með skipulagi hverfisins og með honum hefur hópur heimsþekktra arkitekta unnið að hönnun húsa og umhverfis. Í fyrstu fannst okkur þetta dálítið kuldalegt og fráhrindandi hverfi en smám saman hefur það vaxið í viðkynningu og nú göngum við um og dáumst að byggingunum.

Bragðdaufur matur

En áður en ég týni mér alveg í hrifningu minni á hollenskri byggingarlist þá er best að beina sjónum sínum í aðra átt. Svo ég haldi áfram að bera saman Holland og Belgíu þá er röðin komin að matnum. Þar verð ég að viðurkenna að Belgarnir hafa betur. Maturinn sem hér er á boðstólum og ekki er matreiddur að hætti framandi þjóða er harla bragðdaufur finnst mér. Það er eins og þeir hafi ekki uppgötvað kryddið eða eitthvað í þá áttina og er því þó haldið fram að hollenskur matur gerist ekki betri en einmitt hér í Maastricht.

Ég þekki fólk sem segist fara til Belgíu til að kaupa í matinn því það sé allt vita bragðlaust sem fæst í hollenskum matvöruverslunum. Og það er munur á því að koma inn í grænmetisdeild í hollenskum stórmarkaði eða belgískum. Hér í Hollandi er grænmetið afskaplega vel inn pakkað og raðað snyrtilega í hillurnar – en það er vita bragðlaust. Í Belgíu er hægt að þreifa á því og það er einhvern veginn miklu betra, bragðmeira og safaríkara. Ekki veit ég af hverju, þetta er bara svona og það fer ekki hjá því að manni verði á stundum hugsað til íslenska grænmetisins með allnokkrum söknuði.

Lífsnautnin tæra

Svo ég vitni aftur í hinn belgíska Rudi sem lóðsaði mig um Brussel þá hefur hann skýringu á þessu með matinn. Hann segir að þessi munur tengist trúarbrögðunum. – Sko, þetta er þannig að við kaþólikkarnir kunnum þá list að njóta matarins en þið, mótmælendurnir, eruð bara fóðraðir eins og dýr, sagði hann og glotti.

Eftir því sem ég hugsa meira um þetta finnst mér það réttara. Það er eitthvað í þessari lútersku þjóðarsál sem hvíslar því að manni þegar maður sest að borðum að tilgangurinn með því að borða sé sá einn að gleypa í sig orkuforða til þess að geta haldið áfram að vinna. Við borðum ekki vegna ánægjunnar heldur af illri nauðsyn. Og þetta á enn frekar við hina hollensku kalvínista en þá sem tilheyra lúterskunni.

Jóhann þessi Kalvín sem losaði Hollendinga undan oki páfans í Róm var meinlætamaður hinn mesti. Hann bannaði allt skraut í kirkjum enda líta kalvínskar kirkjur út eins og tómar heyhlöður með hörðum bekkjum, hvítkalkaðar og í mesta lagi einn kross hangandi uppi á vegg. Mönnum var líka bannað að gera vel við sjálfa sig, þeir áttu að vinna í sveita síns andlitis og guði til dýrðar. Færi svo að mönnum græddist fé átti ekki að eyða því í hóglífi og munað heldur spara við sig lífsins lystisemdir og safna í sjóð til mögru áranna.

Flæmskar, ekki franskar

Þetta hefur svo þau áhrif á þjóðarsálirnar að Hollendingar eru heldur nískir og að því er sumir segja nánasarlegir heim að sækja. Þegar fólki er boðið í kaffi og með því er kakan ekki borin fram öll heldur hverjum skömmtuð ein sneið og svo ekki meir. Íslenska viðhorfið: – Blessuð fáið ykkur, það er nóg til frammi, – er því ekki reglan hér.

Belgar eru á hinn bóginn miklu líkari Frökkum sem líta á það bæði sem list og nautn að borða. Mér skilst að hin ameríska skyndibitamenning sem gengur út á að éta hratt og mikið en huga ekki að gæðunum, að þessi menning eigi afar erfitt uppdráttar hjá þessum tveimur þjóðum. Mér skilst líka að margir Belgar og Frakkar líti á MacDonald sem versta ógnvald siðmenningarinnar um þessar mundir. 

Þeir geta trútt um talað. Sjáiði bara frönsku kartöflurnar. Reyndar eru þær réttnefndar flæmskar kartöflur því þessi aðferð við að matreiða kartöflur mun vera upprunnin meðal Flæmingja í Belgíu. Þeir sem hafa smakkað svona kartöflur í Belgíu gera sér grein fyrir því að það sem MacDonald selur undir heitinu franskar kartöflur er í besta falli daufur endurómur af hinni einu og sönnu fyrirmynd – í versta falli hrópleg móðgun og vísvitandi skemmdarverk á þjóðlegri matarmenningu Belga.

Eins og á þessu má sjá er samanburður minn á þessum tveimur þjóðum hvorki strangvísindalegur né tæmandi. Þó  þykist ég hafa komist að því að þær séu á margan hátt harla ólíkar þótt náskyldar séu og þótt maður sé ekki alltaf með það á hreinu í hvoru landinu maður er þegar þotið er eftir hraðbrautunum hér á flatlendinu.