Ómar Valdimarsson og Elías Snæland Jónsson spjalla um Blaðamannafélagið og íslenska fjölmiðlun fyrr og nú
Ef litið er á sögu Blaðamannafélags Íslands má sjá að félagið hefur tekið talsverðum breytingum frá því það var endurreist. Rauði þráðurinn í þeirri þróun er breytingin úr klúbbi í faglegt stéttarfélag. Með nokkrum rétti má segja að verulega hafi hert á þeirri þróun um og upp úr miðjum síðasta áratug. Dagblaðið var stofnað árið 1975, fyrsta dagblað landsins sem var yfirlýst á skjön við flokkakerfið. Árið 1978 er ákveðið að hætta að láta fjölmiðlana skiptast á að tilnefna formann og árið 1981 fer fram fyrsta baráttukosningin um formennskuna.
Til að ræða þessa þróun voru tveir frambjóðendur til formanns árið 1981 teknir tali. Þeir eru Ómar Valdimarsson – sem sigraði í formannskjörinu og gegndi embættinu í sex ár – og Elías Snæland Jónsson. Báðir hófu þeir störf sem blaðamenn á sjöunda áratugnum, Elías árið 1963 en Ómar 1969, og hafa víða komið við á ritstjórnarskrifstofum og fréttastofum. Elías er nú aðstoðarritstjóri DV en Ómar fréttamaður á Stöð 2.
Fyrst bað ég þá að gera samanburð á félaginu og íslenskum fjölmiðlaheimi þegar þeir hófu störf og nú.
Engir samningar um yfirvinnu
Elías: Þegar ég hóf störf var hvort tveggja allt öðruvísi en nú er. Öll blöðin voru flokksblöð og auk þess var minni munur á stærsta og minnsta blaðinu, bæði hvað varðar síðufjölda og útbreiðslu. Blöðin voru flest þetta 12-16 síður, manni þótti það stórt þegar Mogginn fór í 24 síður. Og það var bara ein útvarpsstöð. Ritstjórnirnar voru fámennar, jafnvel innan við tíu manns.
Félagið dró dám af þessu. Það var miklu fámennara og þótt vissulega væru gerðir kjarasamningar voru þeir stuttaraleg plögg. Þar voru ákvæði um launakjör en til dæmis engin um vinnutíma. Menn unnu bara þangað til blaðið var búið og hvarflaði ekki að neinum að fara fram á greiðslur fyrir yfirvinnu. Flestir litu á félagið sem klúbb og það var forðast að ræða um það sem stéttarfélag. Það ríkti hörð pólitísk skipting í félaginu og þess vegna var forðast að ræða pólitísk mál til að halda friðinn. Sem dæmi má nefna að þegar fram voru settar hugmyndir um að félagið gengi í ASÍ varð samkomulag um að gera það ekki vegna þess að þá þyrfti félagið að taka pólitíska afstöðu.
Þetta fór að breytasts þegar líða tók á sjöunda áratuginn. Þá er farið að taka kjaramálin fastari tökum, t.d. samið um vinnutíma og yfirvinnugreiðslur.
Á síðustu árum hefur orðið alger sprenging í fjölmiðlaheiminum og félagið hefur breyst í takti við hana. Fyrst kom hér sjónvarp, svo tóku blöðin að þenjast út og nú síðast nýju stöðvarnar. Við þetta breyttist viðhorf blaðamanna til félagsins. Þeir vildu að félagið væri fagfélag en ekki klúbbur. Félögunum fjölgaði líka ört og meiri festa komst í starfsemina. Ein ástæða er sú að fjárhagslegur grundvöllur félagsins er orðinn allt annar, einkum eftir að greiðslur fyrir höfundarrétt fóru að renna í sjóðina. Þetta hefur skipt miklu máli.
Úr trúboði í fag
Ómar: Þegar ég kom inn í fagið gilti sú regla að menn þurftu að vera ár í starfi áður en þeir öðluðust rétt til að ganga í félagið. Þá þurfti að samþykkja mann inn á félagsfundi. Þeir voru fremur fátíðir svo það leið hátt á annað ár þangað til ég komst í félagið. Ég man að á fundinum þar sem ég var samþykktur var greitt atkvæði gegn mér af því ég vann á vikublaði. Á Vikunni var sömu sögu að segja og Elías nefndi, maður vann eins og skepna án þess að fá greitt fyrir yfirvinnu. Það var ekki fyrr en ég kom á Tímann 1972 að ég fékk yfirvinnugreiðslur.
Á þessum tíma var félaginu stjórnað af helstu ljónunum í faginu, Ívar H. Jónssynisem var formaður og Atla Steinarssyni. Stjórnin stóð þá fyrir merkilegu framtaki sem var að halda námskeið í blaðamennsku, það eina sem haldið hefur verið. Það stóð í 3 mánuði og þátttakendur voru 30-40 talsins. Þarna voru bæði danskir kennarar og íslenskir fyrirlesarar.
Mér fannst hins vegar að BÍ ætti að vera meira félag. Starfið var að breytast úr pólitísku trúboði í skemmtilegt fag og mér fannst nauðsynlegt að félagið fylgdi þeirri þróun. Það gerðist hins vegar ekki að marki fyrr en Kári Jónassonvarð formaður árið 1978. Ég var þá í stjórn og við ákváðum að breyta lögunum um formannsembættið og ráða Fríðu Björnsdóttursem starfsmann félagsins. Þetta mætti engri andstöðu, það var einfaldlega kominn tími til að breyta þessu. Enda er það svo að það tekur nýjan formann árið að læra starfið, t.d. að muna eftir því að sækja póstinn en ekki geyma hann mánuðum saman í pósthólfinu. Þetta breyttist allt og allir voru ánægðir. Árið eftir var rokið í að kaupa húsið í Síðumúlanum.
Samt finnst mér þróun félagsstarfsins heldur raunaleg. Við eigum orðið heilmiklar fasteignir og nóga peninga í sjóði. Tugir nýrra félaga hafa bæst við á skömmum tíma og grundvöllur félagsins er afar traustur. En félagslífið er lítið. Ég man eftir fundi í félaginu þar sem aðeins mætti 1 almennur félagsmaður auk þeirra sem beinlínis höfðu einhverju hlutverki að gegna á fundinum.
Elías: Félagið er hrjáð af sama sjúkdómi og önnur félög í landinu. Það er sárt til þess að vita þegar aðstaðan er loksins orðin mjög góð að þrátt fyrir ýmsar tilraunir forystunnar til að efla starfið þá tekst það ekki.
Ómar: Samt virðast blaðamenn hafa tilfinningu fyrir félagi sínu. Við eigum þetta hús og bústaðina í Brekkuskógi sem eru vel nýttir. Það er þó eitthvað í gangi. Og þótt taxtalaun blaðamanna séu til skammar eru þau töluvert skárri en þau voru fyrir ekki svo löngu.
Elías: Taxtarnir hafa færst nær veruleikanum. Til skamms tíma voru þeir þannig að blaðamenn fyrirurðu sig fyrir þá.
Sprengingar styrkja félagið
– Ef við lítum aðeins nánar á breytinguna í fjölmiðlaheiminum, hverjir eru stærstu áfangarnir?
Elías: Þessar breytingar hófust fyrir alvöru á árunum 1970-75. Á þeim tíma voru blöðin að stækka og harkan í umræðunni að aukast. Með stofnun DB (Dagblaðsins) varð sprenging. Þróunin hefur ekki verið samfelld. Samt má líkja þessu við keðjusprengingar sem verða með nokkru millibili. Og það eru enn að brjótast út sprengingar.
Ómar: Félagið hefur styrkst með hverri sprengingu. Það hefur komið inn nýtt fólk sem ekki er trúboðar heldur áhugafólk um fjölmiðlun. Við höfðum nokkrar áhyggjur af nýju miðlunum, að okkur tækist ekki að halda utan um þróunina. En það hafa engir erfiðleikar komið upp. Fólkið á nýju stöðvunum hefur komið til okkar, enda er BÍ eina félagið sem getur sinnt hagsmunamálum þess. Stöðvarnar hafa líka allar viðurkennt BÍ og samninga þess. Á Stöð 2 var ekki gengið frá ráðningarsamningum fréttamanna fyrr en eigendur stöðvarinnar gáfu yfirlýsingu um að „að öðru leyti gilda samningar BÍ“.
Þetta styrkir félagið því þegar það þarf að sýna tennurnar í samningamálum þá hefur það núna fleiri tennur að sýna. En það þarf að auka félagslífið.
Elías: Ein ástæðan fyrir daufu félagslífi gæti verið sú að það er staðið alveg eins að því og fyrir áratugum. Með því móti næst ekki árangur, það þarf að reyna nýjar leiðir. Ég hef enga patentlausn á því en ég heyrði á dögunum af merkilegri tilraun í Ameríku. Þar hafa blaðamenn tekið sig saman og stofnað tölvubanka. Þetta er er samskiptabanki þar sem hægt er að halda heilar ráðstefnur. Einnig eru í bankanum upplýsingar um fagleg efni, svo sem kjaramál, laus störf o.þ.h. Þessi banki varð til fyrir framtak einstaklinga en það er ekkert því til fyrirstöðu að BÍ hafi forgöngu um stofnun svona tölvubanka hér.
Það er hins vegar ljóst að ef almennir félagar taka ekki þátt í starfinu setja þeir hagsmunamál sín í hendur atvinnurekenda og fámenns hóps „verkalýðsrekenda“. Þeir veikja félagið.
Burt með fríðindin
– Á árum áður var það helsta verkefni félagsins að útvega félagsmönnum ýmis fríðindi, ekki síst persónuleg. Finnst ykkur að þessi fríðindi eigi rétt á sér ennþá?
Ómar: Nei, alls ekki, þau eiga að deyja út.
Elías: Skírteinið á að opna mönnum leiðir til að afla upplýsinga en ekki fyrir blaðamenn sem einstaklinga. Allt sem getur orðið til að tengja blaðamenn hagsmunalega við aðila úti í þjóðfélaginu er óheppilegt. Blaðamenn eia að vera óháðir öllum og jafnvel þótt engin ákvæði séu um skilyrði fyrir fríðindunum gætu þau hæglega orðið blaðamönnum fjötur um fót í starfi sínu.
Ómar: Þetta hefur verið að breytast. Til skamms tíma bauð blaðafulltrúi Flugleiða stjórn BÍ árlega til hádegisverðar þar sem hann fékk félagaskrána svo hann gæti vitað hverjir ættu rétt á afslætti af fargjöldum og hverjir ekki en svo hættum við að mæta á þessa fundi enda litum við svo á að þessi afsláttur væri fyrst og fremst í þágu blaðanna. Það er ekki í verkahring stjórnar BÍ að garfa í því að útgefendur og eigendur fái afslátt.
Þegar Dagblaðið hóf göngu sína var ákveðið að láta alla afslætti lönd og leið. Svo hófst gos í Kröflu og við fórum 3 norður. Á Húsavík í bakaleiðinni drógu kollegarnir á hinum blöðunum upp skírteinin og fóru fram á afslátt af flugmiðunum en við gerðum ekkert slíkt. Seinna drógu svo útgefendur DB upp samninga BÍ og fengu afslátt af fargjöldunum okkar. Þetta sýndi mér að við eigum ekkert að skipta okkur af þessu, enda er þetta alls staðar að detta út. Ímynduð og raunveruleg hagsmunatengsl af þessu tagi eiga ekki að vera til.
Elías: Félagið á að efla faglegan metnað blaðamanna, halda uppi umræðum um starfið og ýmis „prinsipmál“ okkar. Þetta hlutverk verður æ mikilvægara eftir því sem samkeppnin harðnar. Hún hefur það í för með sér að blaðamenn þurfa að taka erfiðar ákvarðanir á æ skemmri tíma. Samtímis hafa árásir á fjölmiðlamenn farið vaxandi og því haldið fram að þeir séu ekki vandanum vaxnir. Þetta á félagið að taka til umræðu.
Fjölmiðlar búa til umræðuefnin
– Þið minntust á að íslenskir fjölmiðlar hafi losnað úr flokksviðjunum. En hafa pólitísk áhrif þeirra minnkað?
Ómar: Pólitísk stýring fjölmiðlanna er ekki eins áberandi og áður þótt flokkspólitísk ítök séu vissulega enn til staðar. Þau eru á undanhaldi og einn daginn detta þau alveg upp fyrir. Þá sjá menn að þau heyra sögunni til.
Elías: Mér finnst áhrif fjölmiðlanna hafa aukist. Fjölmiðla„neyslan“ er meiri en hún var og fjölmiðlarnir eru alls staðar nálægir. Þeir hafa því meiri áhrif á daglegt líf fólks. Hins vegar er ég ekki viss um að einstakir blaðamenn hafi eins mikil persónuleg áhrif á pólitíkina og meðan ritstjórar voru á kafi í pólitík. Nú hafa þeir flestir heldur engan áhuga á því, þeir eru fyrst og fremst blaðamenn.
Það sést vel í fjölskylduboðum hver áhrif fjölmiðlanna eru. Eftir að fólk hefur skipst á fréttum af ættingjunum er farið að ræða það sem var í sjónvarpinu og blöðunum í gær. Fjölmiðlarnir hafa áhrif á umræðuefni fólks en ekki endilega á skoðanir þess.
Aular í öllum stéttum
– Hefur hlutverk blaðamannsins breyst? Eru þeir að reyna að hafa áhrif á skoðanir fólks?
Ómar: Blaðamenn eiga að leitast við að leyfa fólki að mynda sér skoðanir. Þar verða þeir sífellt að reyna að gera betur. En blaðamenn eru upp til hópa betri fagmenn en áður. Kannski skrifa þeir ekki eins fallegt mál og sumir eldri blaðamenn gerðu og auðvitað eru aular í okkar stétt eins og öðrum, hvort sem það eru járnsmiðir eða lögfræðingar. En kjarni stéttarinnar er góður og vel menntaður.
Elías: Það er rétt að undirstrika að við eigum ekki að segja fólki til. Við erum ekki í trúboði eins og Ómar nefndi það. Okkar hlutverk er að veita fólki ítarlegar upplýsingar um allar helstu staðreyndir og viðhorf til þeirra svo að það geti sjálft myndað sér skoðun og tekið ákvarðanir. Það er svo misjafnt hvernig okkur tekst að rækja þetta hlutverk.
Ómar: Það eru þó enn dæmi um að blaðamenn standi í trúboði. Ég bendi á Þjóðviljann og Alþýðublaðið, og svo virðist Tíminn vera á leiðinni í trúboðið aftur. Morgunblaðið á stundum erfitt með sig. Þar er þó mjög ákveðin viðleitni til að forðast trúboð, en hjartað slær alltaf sömu megin.
Viðfangsefni blaðamanna er hins vegar alltaf það sama: hvernig er best að ná í upplýsingar og koma þeim á framfæri.
Loddarar friðlausir
– Það var lengi áberandi að menn höfðu viðkomu á blöðunum í því skyni að koma undir sig fótunum í pólitík. Hefur þetta breyst?
Elías: Já, áður fóru menn á flokksblöðin og unnu sig upp. Nú er frekar farin sú leið, ef blaðamenn hafa á annað borð áhuga á að nota fjölmiðla sem stökkpall í pólitíkina, að velja fjölmiðla sem geta auglýst menn upp sem einstaklinga. Þetta á einkum við um sjónvarpið og við höfum nokkur dæmi um að þetta hafi tekist.
Það hefur líka orðið sú breyting að pólitíkin hefur ekki eins mikið aðdráttarafl og áður. Nú þykir mönnum fullt eins skemmtilegt að vinna við fjölmiðlun.
Ómar: Við eigum nú okkar þátt í þessari breytingu.
Elías: Já, fjölmiðlarnir hafa fært stjórnmálamenn nær fólkinu og afhjúpað veikleika þeirra.
Ómar: Loddararnir fá ekki lengur frið.
Fagleg umræða vill gleymast
– Hvernig líst ykkur á þá þróun sem nú er í gangi í fjölmiðlaheiminum?
Ómar: Það er skemmtilegt að fylgjast með henni. Hverjum hefði dottið í hug fyrir tveimur árum að allar þessar stöðvar spryttu upp?
Elías: Það virðist vera fjárhagslegur grundvöllur fyrir fleiri fjölmiðla en áður var talið. Nýir miðlar eru komnir til sögunnar en samt þenjast blöðin út. Það getur allt gerst og enginn endir sjáanlegur. Það eru spennandi tímar framundan.
– Á ekki tölvutæknin sinn þátt í þróuninni með því að gera reksturinn ódýrari?
Elías: Ég er ekki svo viss um það, tæknin hefur ekki reynst mjög ódýr. Hún hefur leitt til geysilegra fjárfestinga og jafnvel fjölgunar starfsmanna. En það er eins og útþenslan skapi fleiri auglýsingar og auki veltuna sem aftur skapar grundvöll fyrir enn frekari útþenslu.
Ómar: Þegar ég var ráðinn á Stöð 2 fyrir tæpu ári var sagt að stöðin þyrfti 7.000 áskrifendur til að dæmið gengi upp. Nú eru áskrifendur orðnir hátt í 25.000 og er enn að fjölga. Í fyrra voru u.þ.b. 40 manns í starfi við stöðina en nú eru þeir yfir 100. Það hafa engar spár staðist.
Mér finnst framtíðin björt í fjölmiðlaheiminum. En félagið þarf að ná betur til félagsmanna. Í stjórninni eru 10 manns og þar af er yfir helmingurinn virkur. Fimm manna félag getur ekki talist mjög virkt. Félagið má ekki breytast í skrifstofu sem einskorðast við afgreiðslu lífeyrissjóðslána og útgáfu skírteina svo menn komist frítt á völlinn. En ég veit satt að segja ekki hvernig á að ná til félaganna.
Þó held ég að framtíðin sé fólgin í því að stofna fjölmiðlasamband þar sem blaðamenn, útvarpsmenn, hluti prentarastéttarinnar og e.t.v. aðrir sem vinna að fjölmiðlun sameinast, hugsanlega í deildum.
Elías: Forystumenn félagsins eru ekki öfundsverðir af því hlutverki að finna leiðir til að virkja stéttina. Það er hins vegar mjög mikilvægt til þess að hægt sé að halda utan um grundvallaratriði blaðamennskunnar og fylgjast með því sem gerist í öðrum löndum, læra að reynslu annarra. Félagið verður að sinna betur hinni faglegu hlið sem vill oft gleymast í hraða dagsins.
–ÞH