Þriðja bréf af bökkum Maas

Um daginn var ég að horfa á fótbolta í sjónvarpinu, nánar tiltekið úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu sem fram fór í Mílanó á Ítalíu. Þar áttust við tvö lið, Bayern München frá Þýskalandi og spænska liðið Valencia. Leikurinn var spennandi eins og vera ber um svona mikilvæga leiki og honum lauk ekki fyrr en eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni þar sem þeir þýsku höfðu betur.

Sem ég sat þarna í sófanum fór ég að velta því fyrir mér hvað það væri sem tengdi þessi lið við Þýskaland og Spán. Ég sá ekki betur en að meirihluti leikmanna á vellinum væri frá öðrum löndum, jafnvel öðrum heimsálfum. Vörnin hjá Bayern var skipuð tveim Frökkum, Svía og blökkumanni frá einhverju Afríkuríki. Fyrir framan þá var enskur miðjumaður og í framlínunni var Brasilíumaður og maður sem gegndi því hljómfagra nafni Hassan Salihamidzic en hann mun vera þýskur ríkisborgari, fæddur og uppalinn í Bosníu-Hersegóvínu.

Hlutfall heimamanna virtist við fyrstu sýn heldur hærra í liði Valenciu. Þó leyndust þegar betur var að gáð nokkrir Argentínumenn og Brasilíumenn að baki nöfnum sem höfðu spænskan hljóm. Einnig var þar amk. einn  Ítali og tveir blökkumenn, annar frá einhverri fyrrum franskri nýlendu í Afríku. Hinn heyrði ég tala klingjandi norsku við fréttamenn fyrir nokkru en hann mun vera norskur ríkisborgari þótt hann beri nafnið John Carew.

Hvaða mál er talað í Leiftri?

Nú ætti það ekki að koma neinum á óvart hversu algengt það er orðið að  atvinnumenn í knattspyrnu fari milli landa til að afla sér lífsviðurværis. Evrópudómstóllinn og fleiri evrópskar stofnanir hafa rutt úr vegi flestum hömlum sem áður giltu um fjölda erlendra leikmanna í evrópskum liðum og það á raunar einnig við um íslensk knattspyrnulið. Ég man eftir því að hafa setið í grasbrekkunni við Dalvíkurvöll og horft á heimamenn vinna frækinn sigur á liði af Austfjörðum þar sem samræður gestanna inni á vellinum fóru að mestu leyti fram á serbókróatísku því flestir leikmanna voru mæltir á þá tungu. Meðal annarra orða: Hvaða mál ætli sé talað í Leiftri?

Nei, það sem ég var að hugsa um þarna í sófanum gónandi á boltann var að þessi fjölþjóðlegi kokkteill á vellinum væri í raun spegilmynd af því þjóðfélagi sem er að verða til í Evrópu. Á hverju ári flytjast hundruð þúsunda manna til Evrópu frá löndum utan álfunnar – sumir löglega, aðrir ólöglega – og við þá tölu bætist allur sá fjöldi sem flyst milli landa innan álfunnar. Evrópskt samfélag verður æ alþjóðlegra og fjölbreyttara og flestir sjá sem betur fer hversu góð áhrif þessi fjölbreytni hefur á allt mannlíf.

Leiðin að hjarta mannsins…

Nú orðið þykir það hversdagslegt að geta valið um mat frá flestum heimshornum langi mann út að borða. Maastricht er engin undantekning á því þótt hún teljist engin stórborg á evrópskan mælikvarða með svipaðan íbúafjölda og Reykjavík án nærliggjandi svefnbæja. Hér er hægt að borða mat frá ýmsum héruðum Ítalíu (Sardinía er í miklu uppáhaldi hjá minni fjölskyldu) og fjölmörgum löndum Asíu. Fyrrum nýlendur Hollendinga í Indónesíu og Súrínam eiga sína fulltrúa að sjálfsögðu og svo mætti áfram telja.

Auðvitað mætti segja sem svo að hollenskir kokkar séu fullfærir um að læra framandi eldamennsku og að þess vegna væri ekki nauðsynlegt að flytja inn stóra hópa fólks frá öðrum heimsálfum. En fyrst þessir innflytjendur eru komnir á annað borð þá þurfa þeir að hafa eitthvað fyrir stafni og þá langar að sjálfsögðu í mat eins og mamma eldaði hann heima í Djakarta eða Bangkok. Svo komast innfæddir upp á bragðið og þá verður ekki aftur snúið.

Þannig er þetta á mörgum sviðum, fólk heillast af framandi menningu, list og hefðum. Þetta þarf ekki að segja Dalvíkingum eða voru ekki töluð ein fimmtán tungumál í Dalvíkurskóla á nýliðnum vetri?

Íslömsk forneskja

En því miður fylgir þessu ágæta skammrifi nokkur böggull. Hann er sá að þröngsýni og fordómar sem blunda með þjóðunum hafa skotið upp kollinum í kjölfar innflytjendastraumsins. Fólk óttast að innflytjendur taki frá því vinnuna eða geri því annan óskunda. Sá ótti er byggður á misskilningi því reynslan sýnir að innflytjendur fylla bara í skörð sem myndast hafa á vinnumarkaði og ganga í störf sem við Evrópubúar viljum af einhverjum ástæðum ekki sinna.

Ástæðan fyrir þessum fordómum er vanþekking, fólk óttast það sem það þekkir ekki og vissulega geta framandi siðir og hefðir fólks með annað litaraft og aðra guði en innfæddir eiga að venjast blásið fáfróðum ótta í brjóst. Eina ráðið til að eyða þeim ótta er fræðsla og aftur fræðsla.

Sú fræðsla þarf að vera á báða bóga því oft vill það brenna við að innflytjendur bera með sér hluti sem engan veginn falla að siðum og háttum í landinu sem þeir flytjast til. Dæmi um það kom upp hér í Hollandi í vor þegar tveir islamskir klerkar tóku að viðra fordóma sína og forneskjuleg viðhorf í garð samkynhneigðra. Í blaðaviðtölum héldu þeir því fram að samkynhneigð væri sjúkdómur en greindi raunar á um hvort hann ætti sér líkamlegar eða geðrænar orsakir.

Hörð viðbrögð ráðherra

Viðbrögð hollenskra við þessu óvænta framlagi klerkanna til samfélagsins voru til mikillar eftirbreytni fannst mér. Forsætisráðherrann og annar ráðherra gengu fram fyrir skjöldu og fordæmdu þessa forneskju klerkanna. Og ekki nóg með það heldur kölluðu þeir alla múslímska trúarleiðtoga í landinu á sinn fund og lásu þeim pistilinn. Þeir skýrðu klerkunum frá því að í Hollandi hefði það lengi verið stefna stjórnvalda að stuðla að auknu umburðarlyndi milli þegnanna innbyrðis enda vildu þeir að fólk lærði að virða hvert annað og umbera, burtséð frá trúarskoðunum, litarhætti, kynhneigð eða stjórnmálaskoðunum. Ráðherrarnir sögðu klerkunum að yfirlýsingar á borð við þær sem tveir þeirra hefðu látið falla stefndu í gagnstæða átt, þær kyntu undir hatri gegn einum tilteknum þjóðfélagshópi og yrðu þess vegna ekki liðnar. 

Nú má sjá þess glögg merki að ráðherrarnir höfðu sitthvað til síns máls því í fréttum nýliðinnar helgar segir frá því að lögreglan hafi handtekið hóp af marokkönskum og sómölskum unglingum sem lagt höfðu leið sína á samkomustað samkynhneigðra í borginni Eindhoven í því augnamiði að berja þá og ofsækja.

Gert út á fordómana

Því miður eru ekki allir stjórnmálamenn jafnréttsýnir í þessum efnum og hollensku ráðherrarnir. Margir þeirra sjá sér hag í því að spila á og kynda undir fordómum gegn innflytjendum. Í stað þess að vinna gegn fáfræðinni auka þeir við hana í þeim tilgangi einum að afla sér atkvæða og hlaða undir sjálfa sig og flokka sína. Gjarnan er þetta gert í nafni einhverrar öfugsnúinnar þjóðernishyggju sem ekki er í neinum tengslum við daglega og fjölþjóðlega tilveru fólksins í landinu.

Hollendingar hafa fyrir einhverja lukku sloppið að mestu við slíkt fár en það sama verður ekki sagt um nágrannaþjóðirnar, svo sem Belgíu og Þýskaland. Það er ekki gott að segja hvers vegna Hollendingar hafa sloppið við þjóðernisofstækið. Kannski er það einfaldlega í andstöðu við hefðir og venjur, hér hefur um aldir verið iðkuð mikil jafnvægiskúnst á milli trúarhópa enda skiptist þjóðin nokkurn veginn til jafns í kaþólska, mótmælendur og trúleysingja. Þessi staða hefur sett mark sitt á hollenska pólitík því hér er list málamiðlunarinnar öðrum listum æðri.  

Til varnar velferðinni

En í nágrannalöndunum hafa þeir stjórnmálamenn sem vilja ræða málefni innflytjenda æsingalaust og í eðlilegu samhengi fengið bágt fyrir og mátt þola ofsóknir og yfirgang lýðskrumaranna. Á þessu sýnist mér þó að sé að verða breyting því æ fleiri stjórnmálamönnum verður ljóst að það er ekki bara siðferðileg skylda hins evrópska samfélags að taka við þeim sem hingað vilja flytja, ekki síst þeim sem beinlínis hrekjast hingað undan ofsóknum heima fyrir. 

Það er nefnilega komið á daginn að framtíðarvonir hins evrópska velferðarþjóðfélags eru hreint og beint háðar því að til álfunnar liggi jafn og þéttur straumur innflytjenda. Evrópuþjóðirnar eru að eldast og þær fjölga sér mun hægar en þær gerðu á árunum eftir stríð. Þegar fram í sækir er hætta á að þær kikni undan því að halda uppi fjölmennum hópi aldraðra þegar mín kynslóð fer á eftirlaun. Þá verða yngri kynslóðirnar sem þurfa að vinna fyrir okkur mun fámennari en við erum. 

Um þetta hafa verið skrifaðar lærðar skýrslur sem allar ber að sama brunni: Eina leiðin út úr þessari klípu er að auka innflutning á fólki frá öðrum pörtum heimsins, fólki sem vill vinna erfiðu láglaunastörfin sem við nennum ekki lengur að sinna, menntafólki frá þriðja heiminum til að fylla upp í skörðin sem margniðurskorið menntakerfi Evrópu hefur búið til í atvinnulífinu og síðast en ekki síst fólki sem nennir að fjölga sér því ekki nennum við því heldur. 

Svona getur nú fótboltinn í sjónvarpinu leitt mann út í alvarlegar vangaveltur.

Þröstur Haraldsson/Maastricht