Einn eftirminnilegasti dagurinn á ritstjórn Þjóðviljans í fyrsta úthaldi mínu þar var án alls vafa dagurinn fyrir 1. maí 1975. Daginn áður hafði sjónvarpið sýnt síðustu bandaríkjamennina klifra upp í þyrlu sem vomaði yfir sendiráðinu í Saigon. Þegar þyrlan tók stefnuna út á haf vissi maður að stríðinu var lokið. Uppgjöfin var svo tilkynnt að morgni 30. apríl. Þá var Magnús Kjartansson virkjaður á ný til að skrifa forsíðuleiðara. Mér var falið að rifja upp sögu Víetnam síðustu öldina og Degi Þorleifssyni að rekja gang lokakafla stríðsins.