Aldur og tími eru undarleg þing. Ung þráum við ekkert meira en að verða eldri en þegar aldurinn færist yfir sækir að okkur þáþráin, söknuður eftir æskuárunum þegar allt var hægt. Þar á milli er tími málamiðlananna.
Allan tímann vakir þó yfir okkur spurningin og verður áleitnari með tímanum: Af hverju er ég eins og ég er en ekki öðruvísi? Hvað hefur áhrif á okkur og hvað ekki? Hvað var svona sérstakt í mínum uppvexti sem gerði mig að mér, ólíkan öllum öðrum? Þessum spurningum verður aldrei svarað til fulls, en þó er ég viss um að það hafði töluverð áhrif á mig að ég lenti ungur í ferðalögum.
Þessi hugsun sótti á mig í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík – af öllum stöðum. Þannig var að á Búnaðarþingum hefur sú hefð lengi verið við lýði að stjórnmálaflokkarnir bjóða þingfulltrúum til kvöldverðar meðan þingið stendur yfir. Bændaleiðtogar og starfsmenn Bændasamtakanna skipta sér niður á flokkana og snemma árs 2008 ákváðum við Tjörvi Bjarnason að kasta okkur í gin ljónsins og þiggja að þessu sinni boð Sjálfstæðisflokksins. Gestgjafi okkar var þáverandi formaður og forsætisráðherra, gamall bekkjarbróðir minn úr MR, Geir Hilmar Haarde.
Þegar Geir ávarpaði samkvæmið beindi hann kastljósinu sérstaklega að mér. Hann fagnaði því ákaft að ég væri mættur í þetta hús, sagðist ekki hafa búist við því að sjá mig þar. Svo sagði hann frá því þegar við kynntumst fljótlega eftir að við hófum menntaskólanám haustið 1967. Það sem honum þótti merkilegast við mig var að ég var eini maðurinn sem hann þekkti sem hafði komið til Angóla.
Örlögin höguðu því svo til að þegar ég settist í menntaskóla átti ég að baki þrjú ævintýraleg og óvenjuleg ferðalög, mislöng í tíma og rúmi. Til átján landa í fjórum heimsálfum. Það getur ekki talist vanalegt fyrir reykvískan alþýðudreng á sjöunda áratug síðustu aldar, son afgreiðslustúlku í mjólkurbúð og drykkfellds togarasjómanns, enda draumurinn um ferðir almennings til sólarlanda varla kviknaður í kolli Ingólfs og Guðna.
Atvinnulaus til Englands
Vorið 1962 var ég ellefu ára, næstum tólf, þegar móðir mín samdi við vinkonu Rannveigar ömmu minnar um að ég dveldi sumarlangt að Kolbeinsstöðum á Snæfellsnesi. Ég kom þangað eftir skólalok í byrjun júní og undi mér við að reka kýr og önnur störf sem börnum voru falin til sveita. Eitt verk þótti mér þó býsna nýstárlegt. Við vorum tveir jafnaldrar í sveit á bænum og þegar ein kýrin varð yxna vorum við sendir með hana á næsta bæ, Tröð, þar sem staffírugur tuddi beið hennar spenntur. Kusu grunaði hvað til stóð og við þurftum að beita hana ofbeldi til að koma henni á staðinn. Mér er í fersku minni sjónin sem blasti við okkur á Tröð. Nautið var leitt fram í fjósdyr og stóð þar fnæsandi og slefandi á afturfótunum með beinstífan liminn þegar við ýttum kusu afturábak upp að honum. Athöfnin sjálf tók ótrúlega skamman tíma og svo var kýrin fegin þegar henni var lokið að við þurftum að hlaupa á eftir henni alla leið heim.
Þetta vor fékk ég mína fyrstu reynslu af sveitarstjórnarmálum þegar fólki var stefnt í félagsheimilið til að kjósa fimm manns í hreppsnefnd. Oddvitinn var endurkjörinn, virðulegur eldri góðbóndi sem fékk fálkaorðuna nokkrum dögum síðar þegar 17. júní rann upp. Ásgeir forseti var að heiðra hann fyrir félags- og embættisstörf en sveitungar hans höfðu allt aðra skýringu á því af hverju honum hlotnaðist þessi heiður. Auðvitað fékk hann krossinn vegna þess að þetta var fyrsta vorið í manna minnum sem hann hafði ekki orðið heylaus.
Þegar kom fram í lok júní urðu breytingar á heimilishögum á Kolbeinsstöðum því Björn bóndi dó. Ég hafði reyndar aldrei séð hann því hann fór suður á spítala rétt áður en ég kom vestur og eftir mánaðarlegu var hann allur. Þá kváðust þau Rósa og Sverrir sonur hennar ekki lengur geta haft okkur strákana svo við vorum sendir heim.
Þetta setti strik í reikning móður minnar sem hafði talið víst að ég yrði í sveitinni fram að skóla. Pabbi var úti á sjó en kom í land skömmu eftir að ég birtist óvænt á mölinni. Hann var að vísu ekki í Reykjavík heldur Vestmannaeyjum. Hann var togarasjómaður, nánar tiltekið kokkur á togaranum Gylfa frá Patreksfirði. Þetta sumar stóð yfir togaraverkfall svo enginn togari var á veiðum við landið vikum og mánuðum saman. Gylfi hafði hins vegar verið tekinn á leigu til að sigla með afla Vestmannaeyjabáta á markað í Englandi.
Þegar foreldrar mínir töluðu saman í síma og pabbi heyrði hvernig komið var fyrir mér sagði hann: – Sendu strákinn hingað út í Eyjar, ég tek hann með í næsta túr.
Þannig bar mína fyrstu utanlandsferð að.
Á þessum árum lá hinn eini og sanni hringvegur um Ísland enn úti á sjó. Ég átti síðar eftir að fara ófáa hringi í kringum landið með Esjunni, en að þessu sinni hét farkosturinn Herjólfur og var eins og Esjan gerður út af hinu opinbera. Þetta var töluvert minna skip en það sem nú ber þetta nafn, tók ekki bíla og sigldi alla leið frá Reykjavík. Ferðin tók hálfan sólarhring, við sigldum út úr Reykjavíkurhöfn klukkan átta um kvöld og komum til Eyja átta að morgni.
Fyrir mig var það að nokkru leyti eins og ég væri þegar kominn til útlanda. Náttúran og landslagið í Eyjum er svo ólíkt því sem við áttum að venjast á þeim hluta fastalandsins sem ég þekkti. Og svo voru leikir barna allt aðrir en ég hafði alist upp við. Pabbi þekkti mann sem bjó í Eyjum og býr enn og heitir Georg Stanley Aðalsteinsson, sonur Alla Spánarfara. Reyndar sagði pabbi mér að millinafnið hefði átt að vera Stalín en presturinn hefði ekki tekið það í mál við skírnina. Nema hvað að Stanley átti bróður á mínu reki, Guðjón hét hann og tók mig að sér, kenndi mér að spranga og fleiri grunnþætti í barnaleikjum Vestmannaeyja.
Eftir 2-3 sólríka og spennandi daga lagði hið góða skip Gylfi frá Patreksfirði úr höfn, fulllestað af fiski úr bátum Eyjamanna. Stefnan tekin á Pentilinn, þröngt sund milli syðsta odda Orkneyja og skoska meginlandsins. Eftir að Vestmannaeyjar hurfu í sæ var ekki margt að sjá nema endalausa víðáttu Atlantshafsins. Veðrið var gott svo sjóveikin hafði hægt um sig. Strax þarna fann ég fyrir þessari sælu ró sem fylgir því að rugga letilega frá öldu til öldu og sjá ekkert nema himin og haf. Þetta hefur leitt til þess að mér finnast sjóferðir besti og skemmtilegasti ferðamáti sem til er.
Við vorum tveir pottormar um borð, ég og sonur fyrsta stýrimanns, og eyddum tímanum í að kortleggja skipið frá brú niður í lest. Þarna gafst líka gott tækifæri til að reyna matreiðsluhæfileika föður míns sem mér þóttu harla góðir. Hann var ekkert að ofreyna sig á matargerð heimafyrir en reyndist svo listakokkur eftir að landfestar losnuðu.
Fyrstu merki um að við værum að nálgast hið raunverulega útland voru hvítar klessur á dekkinu og hvalbaknum. Mávarnir sem höfðu yfirgefið okkur þegar Vestmannaeyjar hurfu úr augsýn reyndust eiga skoska frændur í massavís og þeir sýndu okkur þá kurteisi að drita út um allt skip. Svo fór að grilla í nýja rönd ofan við sjónarröndina sem smám saman breyttist í hæðótt landslag Skotlands. Þegar við nálguðumst Pentilinn færðumst við stöðugt nær landi og spýttumst loks í gegnum hann og inn í Norðursjó. Þessi Pentill er merkilegt fyrirbæri því í honum er sterkur straumur, til skiptis í báðar áttir og fer eftir sjávarföllum. Við vorum undan straumnum og hraðinn á þessum rólegheitadalli hefur áreiðanlega tvöfaldast þegar mest gekk á. Stýrimaðurinn sagði mér að þegar skip lentu á móti straumnum væri eins gott að slá af og bíða því þau högguðust varla þótt beitt væri fullu vélarafli.
Svo var siglt niður eftir austurströnd Skotlands og Englands með stefnu á Humber-fljót. Við það fljót er geysilegur munur á sjávarstöðu eftir því hvort flóð er eða fjara og þess vegna er lokubúnaður í hafnarkjöftunum til að hemja strauminn. Nyti hans ekki við færu skipin í höfninni á þurrt og legðust á hliðina tvisvar á sólarhring. Vandi okkar var bara sá að þegar við sveigðum inn eftir Humberósum var verið að loka slússunum í Grimsby. Það þýddi margra tíma bið eftir því að þeir yrðu opnaðir að nýju.
Þess vegna var ákveðið að venda kvæði togarans Gylfa í kross og sigla þvert yfir Norðursjó með stefnu á Esbjerg á vesturströnd Jótlands. Danmörk varð því á endanum fyrsta útlandið sem ég lagði undir fót. Það var vel við hæfi því ég hef löngum haft miklar taugar til þess lands.
Í Esbjerg stoppuðum við í einn dag, minnir mig, og þegar pabbi var búinn að gefa körlunum hádegismat og skvera hann af gátum við skotist í land. Þar bar ýmislegt fyrir augu sem 11 ára íslenskum pilti þótti nýstárlegt. Það sem ég tók þó mest eftir var hjólreiðamenningin. Þarna fór hjólafólk í stórum hópum eftir aðalgötum bæjarins og það merkilega var að það var á öllum aldri. Heima í Reykjavík sá maður stöku fullorðinn karl hjóla til og frá vinnu, að öðru leyti voru börn og unglingar ein um að nota þennan ágæta ferðamáta. Þetta rann skyndilega upp fyrir mér þegar ég sá eldri frú í síðri kápu hjóla hægt og virðulega eftir aðalgötunni, hnarreist og flott á gömlu dömureiðhjóli.
Að öðru leyti var ekki margt sem festist í minningunni eftir þessa dagstund í Esbjerg. Einhvers staðar fann ég lítinn tréstaf með rauðum hnúð á endanum, greinilega minjagripur sem á var ritað Fanø. Ég fékk að vita að það væri eyjan sem sást frá höfninni en það leið rúmur aldarfjórðungur þar til ég komst út í þá flötu og fallegu eyju. Stafinn átti ég lengi.
Þegar búið var að losa þetta lítilræði sem landa átti í Esbjerg var snúið við og nú stóðust útreikningar: Höfnin í Grimsby tók okkur opnum örmum í bókstaflegum skilningi. Þar var mikill mastraskógur enda togaraútgerð Breta enn í allmiklum blóma, þrátt fyrir útfærslu íslensku landhelginnar í 12 mílur nokkrum árum áður. Togarar og bátar af öllum stærðum og gerðum lágu bundnir ýmist við bryggju eða hver utan á öðrum. Gylfi lagðist að bryggju nærri fiskmarkaðnum en nokkur töf varð á því að löndun hæfist.
Ég man ekki ljóst hversu lengi við höfðum viðdvöl í Grimsby, sennilega tvo eða þrjá daga. Í það minnsta man ég eftir tveimur ferðum í land. Í annarri þeirra fórum við nokkrir saman í gönguferð um miðbæinn, kíktum í búðir og pabbi lét eftir mér að kaupa nýja plötu með Shadows sem voru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þegar leið fram á veturinn kom hann hins vegar heim með tvær plötur með nýrri hljómsveit sem var að gera allt vitlaust ytra en var að heita má óþekkt enn á Íslandi, amk. í mínum aldurshópi. Meðal laga á þessum plötum voru Love Me Do og I Wanna Hold Your Hand og hljómsveitin var að sjálfsögðu The Beatles.
Í gönguferðinni sáum við einnig Rauða ljónið sem ég hafði oft heyrt skipverja vitna til. Raunar var þetta sjóarakrá sem naut mikilla vinsælda meðal íslenskra togarasjómanna. Sennilega hefur vöruúrvalið ráðið því, þarna var hægt að sitja að sumbli en einnig gengu þar um gólf konur sem buðu sjómönnum í annars konar gleðskap á efri hæðinni. Þetta heyrði ég þó ekki fyrr en löngu seinna, þessa daga í Grimsby hvarflaði ekki að mér að slík viðskipti ættu sér yfirhöfuð stað.
En það var seinni landgangan sem reyndist miklu eftirminnilegari. Þá tók pabbi okkur strákana tvo, mig og son stýrimannsins, og fór með okkur í sirkus sem var með sýningu í nágrannabæ Grimsby, Cleethorpes. Billy Smart’s Circus var þekktasti ferðasirkus Bretlandseyja og alger upplifun fyrir ungan dreng ofan af Íslandi þar sem dýralífið einskorðaðist við fáeinar húsdýrategundir.
Þarna tróðu upp allra handa trúðar, eldgleypar og loftfimleikafólk, sumt á vír í loftinu, annað hoppandi og skoppandi á stórum hestum. Ég man ekki hvort það voru ljón, en tígrisdýr var þarna. Það sem mér fannst þó mest til um var tvennt. Þarna sá ég ísbirni leika listir sínar, klifra og stökkva í gegnum hringi. Ísbirnir voru sem betur fer ekki algengir gestir á Íslandi en talsvert fyrirferðarmiklir í bókmenntunum, til dæmis Nonnabókunum sem ég var einmitt á kafi í þessi misserin. Þeir voru líka fyrirferðarmiklir á sviðinu sem skýrði margt í bókunum.
Hitt atriðið sem vakti óskipta athygli mína voru nokkrir fílar sem leiddir voru inn á svið. Atriði þeirra lauk með því að þeir dönsuðu tískudansinn twist við þartilgerða tónlist með tilheyrandi mjaðmasveiflum. Þetta var ógleymanleg sjón sem ég get enn framkallað að vild.
Rúmlega fjórum árum síðar hóf íslenska sjónvarpið göngu sína og fljótlega varð Sirkus Billy Smarts fastagestur í stofum landsmanna um hver áramót, á milli fréttaannála og skaups. En það var ekki líkt því eins gaman að sjá hann svarthvítan á litlum sjónvarpsskjá og í fullum litum með ljósum, hljóðum og lykt.
Loksins var farið að landa fiskinum sem beið í bráðnandi ís í stíunum. Það gekk hratt og vel fyrir sig þótt vinnuaðferðirnar hafi verið æði frumstæðar í samanburði við gáma- og fiskkassafyrirkomulag nútímans. Fiskinum var mokað með göfflum í tágakörfur sem voru svo hífðar upp á bryggju. Þaðan fór fiskurinn beint inn á markað þar sem hann var boðinn upp, ekki í kílóa- eða tonnavís heldur var notuð mælieiningin stone sem ég hef aldrei áttað mig á.
Fyrr en varði var lestin orðin tóm og hægt að leggja í hann að nýju. Pabbi var búinn að kaupa kost og eitthvað hafði verið flutt af áfengi um borð, í það minnsta setti drykkjuskapurinn sitt mark á heimferðina. Þeir sem voru á frívakt sátu gjarnan með bjórflösku eða eitthvað annað en kaffi í krús og urðu raupsamir. Síðasta kvöldið endaði þetta svo með slagsmálum sem urðu ansi blóðug, nokkrir fengu glóðarauga og einn var heppinn að missa ekki litlafingur þegar farið var að brjóta glös og diska.
Við lögðumst að bryggju í Vestmannaeyjum um miðja nótt eftir að hafa hægt ferðina undir það síðasta. Tilgangurinn með þessum hægagangi var einmitt að koma að landi um miðja nótt svo tollverðirnir væru það syfjaðir að þeir fyndu ekki allan bjórinn, vodkað, séniverinn og tóbakskartonin sem troðfylltu flestar geymslur um borð.
Pabbi tók lítinn þátt í þessum drykkjuskap þangað til skipið var komið að bryggju í Eyjum. Þá hélt hann hins vegar partí og bauð einhverjum Eyjamönnum sem hann þekkti um borð, sá sem ég man best eftir var Ási í Bæ sem söng og spilaði. Stoppið var ekki langt að þessu sinni því brátt tókum við feðgar saman föggur okkar og örkuðum um borð í Herjólf. Sú ferð var eftirminnilegri en sú fyrri en ekki vegna þess hve skemmtileg hún var. Við vorum sviknir um svefnpláss í klefa en máttum hírast í setustofu þar sem við reyndum að koma okkur fyrir á mjóum bekkjum. Pabbi var enn nokkuð ölvaður og rauk annað slagið upp til að gera mál úr þessu með klefann, en ég man vel hvað ég skammaðist mín fyrir hann. Á endanum komumst við þó til Reykjavíkur og þá var tilganginum náð.
Meðferð við vogrís
Nú liðu tvö ár. Vorið 1964 fermdist ég í Fríkirkjunni hjá séra Þorsteini Björnssyni sem hafði reyndar skírt mig líka. Á þessum árum var ég haldinn þeim kvilla að fá af og til vogrís í augnhvarmana, bólur sem ýmist klæjaði eða verkjaði í og breyttust svo í graftarkýli. Mamma hafði farið með mig til læknisins okkar, Eggerts Steinþórssonar, sem kunni eiginlega bara eitt ráð við þessu hvimleiða áreiti. – Drengurinn verður að komast í sól, sagði hann og tottaði pípuna sína. Nú voru góð ráð dýr því ekki var hægt að reiða sig á mikla sól í Reykjavík og ljósaböð í kjallara Austurbæjarskólans höfðu ekki skilað miklum árangri í baráttunni.
Yfir þessu velti mamma vöngum allnokkra hríð og fékk á endanum bráðsnjalla hugmynd. Eins og áður var nefnt voru sólarferðir til Spánar ekki orðnar algengar á þessum árum og stóðu allra síst fátæku alþýðufólki í Reykjavík til boða. Mamma var hins vegar virkur félagi í Sósíalistaflokknum og þar hafði hún heyrt af félagsskap sem hafði það markmið að efla vinskap á milli Íslands og Tékkóslóvakíu. Á vegum félagsins voru skipulagðar ferðir íslenskra ungmenna í sumarbúðir ungherja, en því nafni gegndu æskulýðssamtök tékkneska kommúnistaflokksins. Þar taldi mamma nokkuð víst að hægt væri að komast í sól. Þessar ferðir reyndust vera mjög ódýrar, meira segja svo ódýrar að fjárhagur fjölskyldunnar á Laugavegi 147 réð við þær. Ég held að skýringin hafi verið sú að þátttakendur greiddu einungis fyrir ferðirnar til og frá Tékkóslóvakíu en allt innanlands var í boði þarlendra. Og ferðin kostaði ekki mikið vegna þess að það var ferðast á ódýrasta farrými og gist á farfuglaheimili í Kaupmannahöfn.
Nema hvað niðurstaðan varð sú að um mánaðamótin júní/júlí sumarið 1964 gekk ég upp landganginn á farþegaskipinu M/S Dronning Alexandrine sem gert var út af Det Forenede Dampskibs-selskab í Danmörku. Þetta skip var nokkuð komið til ára sinna og hafði sinnt siglingum milli Íslands og Danmerkur um langt árabil.
Af dekkinu lá leiðin niður í lest fyrir framan brúna þar sem þriðja farrýmið var. Þarna hafði verið tjaslað saman þriggja hæða kojum, mörgum í sameiginlegu rými en á milli þeirra var borð og bekkir umhverfis sem gegndu hlutverki matsalar og setustofu. Þarna komum við okkur fyrir innan um aðra farþega, tíu manna hópur frá Íslandi: tveir strákar og sjö stelpur á aldrinum 13-14 ára ásamt fararstjóranum Sólveigu Jónsdóttur blaðamanni og enskukennara. Hinn strákurinn var Helgi Bernódusson úr Vestmannaeyjum en stelpurnar voru Halldóra K. Thoroddsen, Elín Einarsdóttir, Sigríður Vilhjálmsdóttir, Rósa Eggertsdóttir, Ólína Kjartansdóttir, Nanna Mjöll Atladóttir og Valgerður Björnsdóttir.
Það var siglt sem leið lá út fyrir Reykjanes, meðfram suðurströndinni og stefnan tekin á Þórshöfn í Færeyjum. Þar var stutt stopp því það þurfti að koma við í tveimur öðrum höfnum á eyjunum, Klakksvík og Trángisvági. Við fórum að mig minnir ekki í land en á síðastnefnda staðnum vorum við að teygja úr okkur á bryggjunni þegar smábátur lagði að og skipverjar tóku að landa fiski. Á dekkinu voru klasar af bláskel sem höfðu flækst í netunum og sjómenn ætluðu greinilega að henda eins og hverju öðru rusli. Þá bar að hóp ítalskra samferðamanna okkar sem urðu uppnumdir þegar þeir sáu skelina. Færeysku sjómennirnir ypptu öxlum yfir þessari vitleysu en létu þá fá skelina og vildu ekki þiggja neitt fyrir. Ítalirnir tóku upp vasahnífa, opnuðu skeljarnar og átu fiskinn úr þeim með miklu smjatti og umli. Þetta þótti okkur undarlegur smekkur.
Áfram var haldið inn í Norðursjó með sól og höfrunga hoppandi við stefnið á Drottningunni, inn Skagerrak og Kattegat allt til Kaupmannahafnar. Skipið lagðist að bryggju á svipuðum slóðum og Gullfoss var vanur að gera, milli Nýhafnar og Löngulínu. Í hverfinu Brønshøj beið okkar svefnpláss á farfuglaheimili í fallegu umhverfi, þarna var garður með svanavatni og háar íbúðablokkir handan við það, svipaðar og blokkirnar sem voru að rísa í Langholtshverfinu heima.
Þessi fyrsta heimsókn til Kaupmannahafnar var ekki sérlega minnisstæð, enda stoppuðum við stutt. Þó var það nokkur upplifun að ferðast í fyrsta sinn með sporvagni úr miðbænum út í Brønshøj.
Áfram var ferðinni haldið suður á bóginn með járnbrautarlest og ferju yfir Eystrasalt á milli Gedser á Sjálandi og þýsku hafnarborgarinnar Warnemünde. Þar voru passarnir okkar skoðaðir gaumgæfilega og stimplaðir rækilega enda vorum við að fara í gegnum járntjaldið fræga, réttum þremur árum eftir að Berlínarmúrinn var reistur, inn í Austur-Þýskaland. Lestin beið góða stund í bænum meðan grænklæddir landamæraverðir grandskoðuðu okkur og passana.
Til Berlínar komum við síðla dags, þurftum að skipta þar um lest og bíða í nokkrar klukkustundir eftir þeirri nýju. Við fórum inn á veitingastað brautarstöðvarinnar og pöntuðum okkur súpu sem okkur leist svo ekki sérlega vel á þegar til átti að taka. Þetta var grænleitt sull sem í flaut eggjarauða og bragðið var ólýsanlegt. Við skildum súpuna eftir óétna og fórum að kíkja í kringum okkur. Þá bar þar að tvo unga menn í hvítum skyrtum sem buðust til að sýna okkur nágrenni brautarstöðvarinnar. Þetta voru stúdentar en ekki var okkur ljóst hvernig stóð á ferðum þeirra þarna. Við þáðum boðið og gengum með þeim um miðbæinn í Austur-Berlín. Mér er minnisstæðust voldug breiðgata sem kennd var við Karl Marx en þar höfðu nýlega risið miklar verslunarhallir í þessum þunglamalega sovéska byggingarstíl sem er svo algengur um alla Austur-Evrópu. Karl Marx Alle átti greinilega að sýna fólki að austurhluti borgarinnar gaf vesturhlutanum ekkert eftir í glæsibrag. Þetta var seint um kvöld, enginn á ferli og bílar sáust ekki. Ekki man ég hvernig vöruúrvalið var í búðunum en eftir nokkurn göngutúr kvöddum við ungu mennina og snerum aftur á brautarstöðina.
Daginn eftir komum við til Prag og gerðum stuttan stans að þessu sinni, en þar hittum við túlkinn okkar, Helenu Kadečková. Morguninn eftir settumst við upp í flugvél sem millilenti í Bratislava en setti okkur loks af í borginni Banská Bystrica í miðri Slóvakíu (sem á þessum tíma var sameinuð Tékklandi undir heitinu Tékkóslóvakía). Þar beið okkar rúta sem ók okkur út í sveit. Áfangastaðurinn var stórt og fallegt timburhús í miðevrópskum stíl sem þjónaði Ungherjahreyfingu Tékkóslóvakíu. Herbergin voru stór og hátt til lofts en við deildum hverju herbergi nokkur saman.
Þarna væsti ekki um okkur næstu 3-4 vikurnar. Í búðunum voru fjölmargir krakkar, meirihlutinn innfæddur en einnig unglingar frá ýmsum löndum Evrópu. Ég man eftir nokkrum Svíum, Dönum, tveimur austurrískum systrum, Rússum, Búlgurum og eflaust áttu fleiri þjóðir þarna fulltrúa sína. Sumir bjuggu í stóra húsinu en aðrir í smáhýsum þar í kring. Húsin stóðu í fjallshlíð en neðan við þau var íþróttavöllur og handan við hann lítið stöðuvatn. Fyrir reykvískan dreng var þetta paradís á jörð. Við stunduðum íþróttir, syntum í vatninu og fórum í gönguferðir um nágrennið þar sem hægt var að tína hindber af trjánum. Og það var alltaf sól, eða þannig man ég þetta. Að sjálfsögðu urðum við ástfangin, ég man vel eftir henni Bietku, sætri tékkneskri stelpu sem ég sóttist eftir að vera í námunda við. Svo fengum við hvítar skyrtur og rauða hálsklúta sem voru einkennisbúningur ungherja. Kannski hafði það eitthvað um það að segja að ég gekk síðar með rauða hálsklúta um árabil.
Maturinn var ágætur þótt sumt virkaði dálítið framandi. Til dæmis fannst okkur skrítið af fá skyr, en ekki í djúpum diski með mjólk eða rjóma út á, heldur sem álegg smurt ofan á rúgbrauð. Þetta var eitthvert afbrigði af jógúrt sem er upprunnin á Balkanskaga eða Tyrklandi og var í ýmsum litum þótt ég muni ekki að það hafi verið mikill bragðmunur eftir því hver liturinn var.
Um miðbik dvalarinnar fórum við í ferðalag upp í Tatrafjöllin sem eru á landamærum Slóvakíu og Póllands og ná ívið lengra upp í loftið en Hvannadalshnjúkur. Gamla Skóda-rútan puðaði heilmikið í brekkunum en komst sína leið. Á leið upp í fjöllin heimsóttum við fangabúðir þýska hernámsliðsins frá stríðsárunum. Þetta voru litlar búðir sem mér hefur ekki tekist að finna á korti, en þar voru okkur sýndir baðklefar þar sem ekki kom alltaf vatn úr sturtunum og skammt frá þeim var allstór ofn og færiband að honum fyrir líkin úr sturtuklefunum. Þetta hafði mikil áhrif á mig og óhugnaðurinn situr enn í mér. Þegar við fórum til Krakow með Dómkórnum 2006 afþakkaði ég heimsókn í Auswitch-búðirnar (eða Oświęcimeins og staðurinn heitir á pólsku), fannst ég hafa séð nóg af þessum hryllingi.
Það vóg þennan óhug upp að á bakaleiðinni var komið við í dropasteinshelli sem okkur var sagt að væri sá stærsti í Evrópu. Mig minnir að lengd hellanna hafi verið um 150 kílómetrar, en kannski voru þeir styttri. Það var ótrúlegt landslag sem blasti þarna við neðanjarðar, miklir salir fullir af dropasteinsstólpum sem minntu dálítið á súlurnar í stóru moskunni í Cordoba á Spáni en litadýrðin var miklu meiri.
Sumardýrðin í sveitasælunni tók að sjálfsögðu enda og við settumst upp í lest sem flutti okkur aftur til Prag. Þetta var ekki besta lestin sem við fengum að reyna í ferðinni, kolakynt og hæggeng og stoppaði í hverju þorpi sem á vegi hennar varð. En á endanum komumst við á leiðarenda og gátum skolað af okkur kolarykið og sótið. Nú var okkur komið fyrir í stúdentagörðum utan við miðborgina þar sem við gistum í 2-3 nætur en á daginn var farið með okkur í skoðunarferðir um gamla bæinn sem var ekki síður fallegur þá en þegar ég kom þangað aftur með Dómkórnum haustið 1999. Karlsbrúin og forsetahöllin lifa í minningunni, svo ekki sé minnst á styttuna af Jóhanni Húss og klukknaspilið með postulunum í kirkjunni við Gamla torgið. Dásamleg borg.
Svo var komið að kveðjustund og þá komumst við að því, okkur til ómældrar ánægju, að gestgjafar okkar hefðu fundið til með hópnum að þurfa að ferðast á öðru eða þriðja farrými svo þeir splæstu í farmiða á fyrsta farrými til Berlínar, gott ef ekki alla leið til Kaupmannahafnar. Við settumst inn í rúmgóðan klefa og sukkum í mjúk sætin með vínrauðu flauelsáklæði. Þvílíkur munaður!
En sú dýrð stóð því miður ekki lengi. Það er stutt frá Prag til þýsku landamæranna, 1-2 tímar með lest, og þar vorum við að sjálfsögðu krafin um vegabréf. Þá kom upp úr dúrnum að þau höfðu gleymst á skrifstofu gestgjafa okkar í Prag. Við vorum rekin út úr fína klefanum og máttum dúsa á brautarstöðinni meðan bíll ók á ofsahraða með vegabréfin frá Prag. Loks komu þau og nokkru seinna gátum við sest upp í lest að nýju. En nú var ekkert fyrsta farrými heldur yfirfull lest sem var að koma frá Búlgaríu og við urðum að sætta okkur við að sitja á hörðum bekkjum í matsalnum langleiðina til Berlínar. Þar skiptum við um lest og fórum sömu leið til baka, með ferju frá Warnemünde til Gedser á suðurodda Sjálands, og runnum brátt inn á Hovedbanegården í Kaupmannahöfn.
Aftur lá leiðin út í Brønshøj þar sem farfuglaheimilið tók okkur fagnandi og svanirnir á tjörninni sömuleiðis. Þar fengum við smátíma, 2-3 daga, áður en Drottningin lagði úr höfn. Það minnisstæðasta við þessa heimsókn var þegar ég stakk hópinn af og fór í könnunarleiðangur á eigin vegum um borgina. Seinni daginn var ákveðið að fara á Strikið þar sem ferðafélagar mínir vildu kíkja í verslanir. Við skiptum okkur í litla hópa og fengum ströng fyrirmæli um að vera aldrei ein á ferð. Ég átti engan pening eftir svo ég sá enga ástæðu til að eyða tímanum í búðaráp. Lét mig því hverfa og náði mér í kort af miðbænum. Ég gekk eftir Strikinu yfir Kóngsins Nýjatorg og inn á Breiðgötu sem ég mundi eftir úr Nonnabókunum. Ekki fann ég bakaríið þar sem Nonni smakkaði í fyrsta sinn Napóleonsköku. Ég sannreyndi hins vegar að Marmarakirkjan var fullbyggð, en hún var í byggingu þegar Nonni var þar á ferð um það bil einni öld fyrr. Svo gekk ég í gegnum Amalienborg, yfir Nýhöfnina og niður í hverfið bak við Konunglega leikhúsið þar sem ég vissi að var gata sem hét Peder Skramsgade. Í þeirri götu skoðaði ég hótel þar sem Rannveig systir mín hafði unnið veturinn áður en ég var þarna. Hún var komin til Lundúna en þarna vann ennþá vinkona systra minna, Sigga, sem ég gerði þó ekkert til að hafa uppi á. Þegar ég kom heim frétti ég að hún hefði framið sjálfsmorð um sama leyti og ég var þarna, fleygði sér út um glugga á fimmtu hæð, að talið er. En um þetta vissi ég ekkert þegar ég gekk um götuna á leiðinni aftur upp á Strik þar sem veski ferðafélaga minna voru orðin eitthvað léttari.
Dronning Alexandrine tók okkur vel og við sigldum sömu leið til baka, tíðindalítil ferð, að öðru leyti en því að í Þórshöfn í Færeyjum komu fjórir kátir íslenskir sveinar um borð. Ja, kátir er kannski of mikið sagt. Þeir höfðu verið að skemmta sér á Ólafsvöku í tilefni af því að þeir voru búnir með landspróf og stefndu að því að setjast á skólabekk í Menntaskólanum í Reykjavík um haustið. Þetta hafði verið ansi blautur túr í ýmsum skilningi og þeir báru þess nokkur merki. Í MR kynntist ég þeim öllum þegar leið mín lá þangað þremur árum síðar. Nú eru þrír þeirra látnir, þeir Vilmundur Gylfason, Örn Þorláksson og Ingólfur Margeirsson, en Hrafn Gunnlaugsson lifir.
Ferðin gekk eins og í sögu og því má bæta við að eftir að heim kom fékk ég einu sinni vogrís. Síðan ekki söguna meir. Læknisráð Eggerts og útsjónarsemi mömmu höfðu virkað.
Með túnfisk í fjórum heimsálfum
Enn liðu tvö ár og upp rann vorið 1966. Ég lauk landsprófi þetta vor og áður en niðurstöður úr því (sem voru nokkuð tvísýnar eins og síðar verður sagt frá) lágu fyrir hófst þriðja utanlandsrispan mín og sú lengsta, bæði í tíma og rúmi. Þannig var að Siggi félagi minn, sem kenndur var við verslunina Sif á horni Frakkastígs og Laugavegar, átti föður, Sigurð Fjeldsted, sem átti vin og spilafélaga sem starfaði á skrifstofu skipafélagsins Jökla hf. Þetta ágæta fyrirtæki hafði komið sér upp fjórum eða fimm skipum sem voru sérstaklega hönnuð og smíðuð til þess að flytja frystan fisk frá Íslandi til útlanda. Þeir höfðu haft samning við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um fasta flutninga á fiski til Evrópu og Ameríku, en af einhverjum undarlegum ástæðum ákvað einn stjórnarmanna og stærsti eigandi Jökla, Einar Sigurðsson ríki, að láta Eimskip (þar sem hann átti líka hlut og sat í stjórn) fá þessa flutninga fyrir SH (þar sem hann átti líka hlut og sat í stjórn). Við það urðu skipin verkefnalaus hér heima því skipaútgerð SÍS sá um sína flutninga og fleirum var vart til að dreifa í íslenskum sjávarútvegi á þessum árum. Stjórnendur Jökla urðu því að reyna að finna þeim verkefni erlendis og það góða og glæsilega skip Hofsjökull, sem var ekki nema tæpra þriggja ára gamalt, hafði verið í siglingum víða um heim um nokkurt skeið án þess að koma í íslenska höfn. Á þessu skipi útvegaði pabbi hans Sigga Sif okkur pláss sem messaguttar.
Þar sem skipið kom aldrei til Íslands urðum við að fljúga út til Evrópu til móts við það. Siggi var búinn í prófum aðeins á undan mér og flaug til Rotterdam í Hollandi en Hofsjökull var væntanlegur til hafnar í borginni Cork á suðurströnd Írlands þegar ég var laus úr landsprófsönnum. Þann 9. júní vorum við því mættir út á Keflavíkurflugvöll, ég, Ólafur Sigurðsson kokkur og minn verðandi yfirmaður, en þriðji maðurinn var Birgir háseti sem á eftir að koma nokkuð við þessa sögu síðarmeir. Ekki gekk ferðin alveg átakalaust fyrir sig. Samkvæmt áætlun áttum við að fljúga með Pan American þotu til Glasgow en þegar til átti að taka reyndist hún fullbókuð þegar hún kom frá Ameríku svo við urðum að gera okkur að góðu að bíða eftir Loftleiðavél sem fór nokkru síðar. Sú vél var reyndar ekki þota heldur skrúfuvél og ferðin tók því lengri tíma en ella. Þar með var útséð um að við kæmumst alla leið til Cork á einum degi. Við millilentum í Glasgow í Skotlandi og fórum þar um borð í minni flugvél sem flutti okkur til Dublin á Írlandi. Skoska veðrið var ekki upp á sitt besta, rigning og hífandi rok, svo vélin sem við sátum í bæði hristist og blakaði vængjunum í gríð og erg lengst af. En allt fór vel að lokum og við lentum í Dublin heilu og höldnu. Þar var búið að panta herbergi fyrir okkur á fínu hóteli, Intercontinental, og þar gengum við til náða.
Morguninn eftir áttum við að fara fljúgandi frá Dublin til Cork en starfsfólk hótelsins fína klikkaði á því að vekja okkur svo þegar við mættum út á völl var vélin farin. Þá var ekki annað til ráða en að taka lest og í henni sátum við þrjá eða fjóra tíma. Þetta var skemmtileg ferð þv
í við fengum að njóta írska landslagsins og sannreyndum að Írland stendur undir nafni sem eyjan græna. Það var eini liturinn í landslaginu alla leiðina, en í ótal litbrigðum. Loksins komumst við til Cork undir kvöld, allnokkuð lerkaðir eftir tveggja daga ferðalag.
Daginn eftir var lagt úr höfn og stefnan tekin vestur yfir Atlantshaf á New York. Fyrstu dagarnir voru mér dálítið erfiðir. Ég var að venjast hreyfingum skipsins en þær vöktu í mér sjóveiki sem ekki minnkaði við það að ég glímdi við eftirstöðvar af bólusetningu gegn bólusótt, gulu og einhverju fleiru. Ég var því hálfslappur. En það var svo sem ekkert að veðri svo þetta rjátlaðist fljótlega af mér.
Siglingin yfir hafið tók rúma viku og sá hvergi til lands fyrr en við nálguðumst Bandaríkin. Að vísu fórum við nærri landi hjá St. Johns á Nýfundnalandi en þokan var svo þykk að það eina sem við urðum vör við voru þokulúðrarnir sem heyrðust greinilega og bentu til þess að við værum skammt frá landi.
Starf mitt um borð var að aðstoða kokkinn við daglega matseld, snattast fyrir hann niður í kæli og búr og þvo upp pottana. Einnig var það mitt hlutverk að þrífa salerni yfirmanna. Samfélagið um borð var dálítið sérkennilegt. Þarna voru um 25 manns, þar af tvær konur, eiginkonur skipstjóra og 2. stýrimanns. Skipstjórinn, yfirvélstjórinn, bátsmaðurinn, tveir hásetar og við í eldhúsinu unnum dagvinnu, en aðrir stóðu þrískiptar vaktir, tvisvar sinnum fjóra tíma á dag. Þannig var þetta meðan við vorum á siglingu en í höfnum voru vaktirnar leystar upp og menn unnu bara á daginn. Í eldhúsinu vorum við fjórir, við Siggi vorum messaguttar, hann þjónaði yfirmönnunum til borðs en messar undir- og yfirmanna voru aðskildir. Undirmennirnir sáu um sig sjálfir í eigin messa og fengu matinn frá okkur í gegnum lúgu. Svo var það Óli kokkur og brytinn sem ég man ekki lengur hvað hét. Hlutverk brytans var að stjórna okkur hinum og stjana í kringum skipstjórann og frú hans sem héldu sig út af fyrir sig í brúnni en þangað bar brytinn þeim sérvalinn mat, ekki þann sama og við hinir máttum gera okkur að góðu.
Skipstjórinn var sérkapítuli um borð en þegar pabbi heyrði hver hann var sagði hann eitthvað á þá leið að nú fengi ég að sigla með mesta idjóti í íslenska flotanum og þó víðar væri leitað. Ég er ekki fjarri því að hann hafi haft rétt fyrir sér. Þessi maður hafði verið áberandi í samtökum nasista á árunum milli stríða. Hann var af góðum ættum með danskt ættarnafn, en lét sig hverfa út á sjó þegar nasisminn féll úr móð. Hann leit stórt á sig og talaði niður til okkar skipverja. Sem betur fer liðu oft margir dagar milli þess að við sæjum hann.
Brytinn laut þessum yfirmanni sínum og var heldur hvimleiður, en aðra skipverja kunni ég ágætlega við. Þarna voru innan um töffarar sem höfðu siglt um höfin sjö um árabil, en aðrir voru nýir í þessum bransa. Þótt Íslendingar ættu sér langa sögu sem sæfarar hafði útgerð þeirra einskorðast við fiskiskip og flutningaskip sem sigldu milli Íslands og nágrannalandanna „flytjandi varninginn heim“ og heiman. Útgerð skipa sem sigldu um heimsins höf og komu aldrei til heimahafnar, en voru í leigu erlendra skipamiðlara, var ekki algeng á Íslandi þótt frændur okkar Norðmenn, Svíar og Danir væru þessu alvanir. Sjómenn af svipaðri gerð og Ewert Taube syngur um voru því ekki ýkja fjölmenn stétt á Íslandi.
Fyrir marga skipverja var þessi vinna ágætis tækifæri til að forðast einhver leiðindi uppi á Íslandi og hvíla sig á skerinu og skuldabaslinu. Einhverjir voru nýskildir, aðra langaði bara að prófa eitthvað nýtt og svo vorum það við messaguttarnir og félagarnir, ég og Siggi. Auðvitað voru ekki allir alltaf vinir en þetta var upp til hópa góður félagsskapur og oftast gaman að vera með þeim.
Þessi fyrsta sigling endaði eins og til stóð með því að við biðum eftir tolla- og vegabréfaeftirliti á ytri höfninni í New York eftir að hafa siglt undir Verrazone Narrows brúna sem þá var tiltölulega nýrisin og ein af lengstu brúm í heimi. Frelsisgyðjan blasti við og að baki hennar frægasta borgarmynd heims, Manhattan-eyja með alla sína skýjakljúfa og Empire State hæstan því þetta var áður en tvíburaturnarnir risu til þess eins að vera skotnir niður. Ég sýndi útlendingaeftirlitinu glænýjan passa því mér hafði verið ráðlagt að endurnýja hann áður en ég færi til Ameríku, þar á bæ yrði því tæplega tekið með miklum fögnuði að sjá skrautlega stimpla stjórnvalda í Austur-Þýskalandi og Tékkóslóvakíu. Á þessum árum þurftu menn að hafa hreinan skjöld hvað varðar pólitísk afskipti á vinstrikantinum til að geta siglt á Ameríku. Sagt var að Eimskip þyrfti að skipta út mönnum í áhöfnum skipa sem komu frá Evrópu og áttu síðan að fara vestur um haf.
Svo var lagst að bryggju í útborginni Newark, en þar stöldruðum við ekki lengi því skipið var fært inn í Brooklyn og lá þar í eina þrjá daga, minnir mig, með Brooklyn-brúna framundan og Manhattan á stjórnborða. Þarna bar það helst til tíðinda að leigubíll ók fram á bryggjuna og bílstjórinn bauðst til að aka okkur, gegn hóflegu gjaldi að sjálfsögðu, í kynnisferð um Manhattan. Þetta þáðum við nokkrir og fylltum bílinn. Hann ók með okkur á milli helstu kennileita borgarinnar og sýndi okkur margt forvitnilegt, þar á meðal Rockefeller Center og Kínahverfið, en þegar ég spurði hvort hann vildi fara með okkur upp í Harlem sagðist hann svosem geta gert það, en þangað inn færum við á eigin ábyrgð. Á þessum tíma var Harlem hreint blökkumannahverfi og hvítir menn létu ekki sjá sig þar. Það var svo löngu seinna sem Bill Clinton opnaði þar skrifstofu og gerði Harlem að tískuhverfi.
Meðan skipið lá við bryggju í New York barst mér bréf frá Íslandi. Mamma skrifaði mér og sagði mér meðal annars frá niðurstöðum landsprófsins sem ég lauk rétt áður en ég hélt utan. Ég náði einkuninni 6,0 en það var lágmarkið til þess að komast í menntaskóla. Raunar nægðu 5,0 til að ná landsprófi en þá komst maður ekki í menntaskóla, varð að vera áfram í gagnfræðaskóla eða fara í iðnskóla eða annað verklegt nám. Skipsfélagarnir óskuðu mér til hamingju með árangurinn og raunar skipti þessi einkunn töluverðu máli fyrir framhald mitt í lífinu. Sennilega hefði ég haldið áfram loftskeytanáminu og orðið sjómaður hefði ég ekki náð 6,0 á landsprófinu. Það opnaði mér leið í menntaskóla.
Í New York losuðum við írska osta og annað góðgæti frá Evrópu en lestuðum í staðinn ýmsan varning sem flytja átti suður á bóginn. Þar voru meðal annars nokkrir bílar sem áttu eftir að gera okkur grikk. Við yfirgáfum New York og sigldum suður með austurströndinni til borgarinnar Savannah í óshólmum samnefndrar ár í Georgíu-fylki. Þetta var frekar syfjuleg hafnarborg en ekkert skorti á hitann, rakann og skordýralífið. Þarna sá ég í fyrsta sinn drekaflugu, sauðmeinlaust en tignarlegt dýr sem sveimaði utan við kýraugun á eldhúsinu eftir að skyggja tók og gat náð 10 sentimetra stærð. Hitinn fór stundum yfir 40 stig og þá var ekkert annað að gera en sitja kyrr og fylgjast með svitataumunum.
Dvölin í Savannah átti ekki að verða löng en það breyttist snögglega eftir að það kviknaði í fremstu lestinni daginn eftir að við komum. Þar voru bílar sem átti að flytja eitthvert, ekki veit ég hvert, en það kviknaði í þeim, hafði greinilega ekki verið gengið nógu vel frá rafmagni í þeim. Bryggjan fylltist af slökkviliðsbílum og -mönnum sem slökktu eldinn fljótt og vel. Litlar skemmdir urðu á skipinu en þó nógar til þess að tefja okkur um hálfan mánuð. Fyrir vikið gátum við notið þjóðhátíðardags Bandaríkjanna þann 4. júlí í bænum. Það var nú hvorki merkilegt né minnisvert, það eina sem ég man var að Óli kokkur fékk sér dálítið vel í aðra tána og sofnaði á bekk í almenningsgarði en vaknaði í fangaklefa. Þaðan losnaði hann að áliðnum næsta degi og kom þá um borð, illa timbraður, úrillur og heldur skömmustulegur.
Bruninn hafði áhrif á áætlun skipsins. Ekki man ég hver hún var fyrir brunann en eftir viðgerðina var haldið til hafs á ný og stefnt áfram suður með austurströndinni. Við sigldum framhjá Canaveral-höfða, eins og hann hét þá (nú Kennedy-höfði) en því miður um miðja nótt svo hinn dyggi aðdáandi Tom Swift-bókanna sá ekkert til geimferðamannvirkja NASA. Við sigldum meðfram fögrum sandströndum þar sem með nokkur hundruð metra millibili stóðu hús, eigi allsmá, og bryggjur út frá þeim, sumar með bátum við festar, en ekki hræða á kreiki. Svo breyttist þetta skyndilega því nú var sandströndin morandi í fólki. Við vorum komin í útjaðar Miami-borgar og almenningsströndin tekin við. Það sem við sáum áður var sams konar strönd en í einkaeigu.
Áfram héldum við suður fyrir Miami og beygðum þar til vesturs með Kúbu á bakborða og Key West á stjór. Við sigldum vestur fyrir Kúbu og linntum ekki látum fyrr en við komum á ytrihöfnina í borginni Colón í Panama. Þar fór skipið í biðröð með fjölda skipa sem ætluðu að fara um skipastigana og kanalinn yfir í Kyrrahaf. Við fengum að skjótast í land eina kvöldstund en svo var lagt á brattann. Panamaskurðurinn er mikið mannvirki og merkilegt, kostaði líka sitt í dölum og mannslífum. Hofsjökull sigldi inn í fyrsta stigahólfið og því lokað að baki skipsins. Svo var sjó dælt inn í dokkina og vatnsyfirborðið hækkaði. Þegar það var orðið jafnhátt og í næstu dokk var opnað á milli og skipið sigldi inn í hana. Þannig gekk þetta koll af kolli nokkrum sinnum. Þegar stiganum sleppir tekur við skipaskurður sem tengir saman nokkur lítil vötn og er að hluta til víkkaður árfarvegur. Sami tröppugangurinn endurtók sig niður á við Kyrrahafsmegin.
Nú tók við nokkurra daga sigling suður með vesturströnd Suður-Ameríku, fyrst Kólumbíu, Ekvador og loks Perú en þangað var ferðinni heitið. Í fyrstu höfðum við enga landsýn, sáum ekkert til Kólumbíu, en svo kom strönd Ekvadors í ljós, háir bakkar með þéttum hitabeltistrjágróðri fram á ystu brún. Þarna var ekki lífsmark að sjá þar til við sáum litla vík inn í bakkann. Þar var pínulítið undirlendi, innan við kílómetra að þvermáli, og á því stóð þorp eins og út úr einhverri fortíð. Kofar með stráþaki og fólk á stjái innan um þá. Þorpið var umlukið háum bökkum og erfitt að sjá hvernig þorpsbúar gátu haft samskipti við umheiminn öðruvísi en sjóleiðina. Kannski áttu þeir ekkert erindi við annað fólk.
Um líkt leyti var efnt til uppákomu á dekkinu þar sem stýrimaður og bátsmaður höfðu fyllt kistu af sjó. Í hana var öllum þeim dýft sem ekki höfðu áður siglt yfir miðbaug. Þeir voru skírðir í nafni Neptúnusar og gefið heiti, Sæúlfur var mitt nafn, en af einhverjum ástæðum hafði gleymst að panta nógu mörg skírnarvottorð í New York svo ég fékk aldrei bréf upp á þessa skírn.
Áfangastaðurinn var hafnarbærinn Chimbote í norðurhluta Perús, eða öllu frekar nágrannaþorp hans sem heitir Coishco. Þar lögðumst við á ytrihöfnina og upp að skipshlið komu bátar fullir af frystum túnfiski sem skipað var um borð. Þetta var löngu fyrir daga gámaflutninganna svo fiskarnir, sem voru allstórir, eða 1-2 metrar að lengd, voru tíndir um borð af hópi heimamanna og raðað í lestina undir vökulu auga bátsmanns og stýrimanna. Þetta tók tíu daga og var lestin þó ekki full.
Á meðan gerðum við okkur ýmislegt til dundurs í þessum framandi stað. Lítið var við að vera í Coishco en stutt til Chimbote sem var talsvert stærri bær. Á leiðinni þangað benti bílstjórinn okkur einu sinni upp í fjallshlíð þar sem sjá mátti hella sem grafnir voru út í fjallið. Í þessum hellum bjó fólk.
Í Chimbote var nokkuð stór höfn og þar sáum við skip frá Norðurlöndunum við bryggju, meðal annars stórt finnskt flutningaskip sem lestaði einhvers konar málmgrýti. Eflaust hafa verið einhverjar námur uppi í Andesfjöllunum sem gnæfðu yfir svæðið. Í bænum var að sjálfsögðu margvísleg þjónusta fyrir ferðalúna sjómenn. Ég man eftir skemmtilegri hópferð okkar skipverja á veitingastað þar sem snæddur var kjúklingur og með honum drukkið Pepsí. Svo var pöntuð flaska af vodka eða rommi og blandað út í gosið. Ég man líka að mér þótti athyglisvert að koma úr menningu þar sem allt snerist um Kók og Camel-sígarettur og lenda á stað þar sem Pepsi og Chesterfield áttu sviðið.
En eftirminnilegasta þjónustustofnunin á þessum stað var þó án alls vafa hóruhúsið. Þangað sóttu sjómennirnir talsvert og þangað fór ég einhvern tíma í fylgd skipsfélaga minna. Þar rauk sveindómurinn í fangi stúlku af indjánaættum sem var ósköp indæl, ekki síst eftir að hún uppgötvaði að ég var alger byrjandi í þessu fagi. Þessi minning er því bara jákvæð í mínum huga, þótt ég viti ekki mikið um hvað á gekk í kollinum á stúlkunni, við gátum ekkert talað saman. Og ég slapp við lekandann sem margir gestir þessa húss fengu eftir heimsóknina. Sagt var að af 40 skipverjum á stóra finnska skipinu hafi 38 fengið lekanda, en það sel ég ekki dýrara en ég keypti það.
Önnur minning er frá sjóferð sem við fórum nokkur með Páli Torp fyrsta stýrimanni á björgunarbáti Hofsjökuls. Við sigldum meðfram ströndinni og fórum í land þar sem við sáum einhver námumannvirki en þar minnir mig að hafi verið bryggjustúfur sem hægt var að leggja bátnum upp að. Náman reyndist ekki lengur í notkun og mannvirkin heldur óhrjáleg en frá þeim lá ævaforn steinlagður stígur upp í hæðirnar ofan við bryggjuna. Páli þótti ekki ólíklegt að þessi stígur væri lagður á tíma Inkanna sem áttu sitt stórveldi á þessum slóðum fyrir daga Spánverja. Stígurinn var augljóslega hlaðinn og nógu breiður til þess að hægt hefði verið að aka eftir honum á hestvagni, jafnvel litlum bíl. Á það síðastnefnda hefur þó tæplega reynt á tímum Inkanna.
Loks kom að því að ekki var meiri fisk að hafa í þessu plássi. Bátarnir sem veiddu hann voru raunar ekki í eigu innfæddra því þeir skörtuðu flestir hinum bandaríska Stars and Stripes. Þarna var kúgun fyrsta heimsins á þeim þriðja í fullum gangi, rétt eins og á bananaekrunum og í námunum: Kaninn átti þetta allt og flutti arðinn úr landi.
En hvað sem því leið yfirgáfum við þennan stað og héldum aftur til norðurs. Nú var ekki siglt lengi, tvo daga minnir mig, og tekið land í hafnarbænum Manta um miðbik Ekvadors. Þar var haldið áfram að fylla skipið af sama túnfisknum, en ekki lengi staðið við og lítið farið í land. Einhverjir höfðu þó ekki fengið nóg á hórukassanum í Chimbote heldur fluttu um borð stúlkur sem buðu sig nærri höfninni. Ég man eftir einni sem átti erindi á snyrtinguna og spurði gestgjafa sinn opinmynnt á eftir hvort á þessu skipi væru eintómir milljónamæringar, annað eins klósett hafði hún aldrei séð! Ég lét mér nægja að kaupa tvær útskornar styttur eða lágmyndir úr tré sem ég á enn og héngu til skamms tíma uppi á vegg í herbergi Tobbu dóttur minnar.
Áfram var haldið til norðurs og brátt komum við aftur í Panamaskurðinn sem var afgreiddur snögglega, enda traffíkin minni en í fyrra skiptið. Svo var stefnan tekin til norðausturs, austur fyrir Haítí og Dóminíkanska lýðveldið, áleiðis til bæjarins Mayagüez á vesturströnd Puerto Rico. Þar var túnfiskinum landað og tók það upp undir viku. Þessi staður er ekki ýkja minnisstæður fyrir annað en rigninguna. Á hverjum degi, um hádegisbilið, gerði algert úrhelli en að öðru leyti var sól og blíða. Einn daginn átti ég frí og ákvað að fara upp í bæinn sem var í nokkurri fjarlægð frá höfninni. Ég gekk upp á bryggjuna en þá fór að rigna meira en nokkru sinni fyrr svo ég mátti bíða af mér úrhellið undir skyggni vöruskemmu. Þegar upp stytti hafði ég uppi á leigubíl og sagðist vilja komast „downtown“. – Sestu inn, sagði bílstjórinn en gerði sig ekki líklegan til að leggja af stað. Það fór að tínast að fólk sem settist inn í bílinn líka og það var ekki fyrr en bíllinn var orðinn fullur af hafnarverkamönnum á heimleið sem lagt var af stað. Við ókum sem leið lá meðfram sjónum í átt að bænum en sá vegur var á kafi í vatni og bílar áttu í erfiðleikum. Svo fór að bílstjórinn gafst upp á að bíða. Hann sneri við og fór upp í hlíðina, fann þar veg sem lá einnig niður í bæ og þannig komst ég loks í bæinn. Hvað þar var að finna er mér hulin ráðgáta, minnið brestur. Mér þykir þó ekki ólíklegt að ég hafi fengið mér glas af kóki og Ron Rico – Ron Superior. Það var auglýst grimmt í sjónvarpi þessarar bandarísku nýlendu sem við gátum séð svarthvítt og fremur óskýrt í sjónvarpstækinu um borð. Það þótti okkur með ólíkindum, enda bannað þá sem nú að auglýsa áfengi í íslenskum fjölmiðlum. Þetta var raunar tveimur mánuðum áður en íslenska sjónvarpið tók til starfa. Í Mayagüez urðum við kvenmannslausir því eiginkonur skipstjóra og stýrimanns kvöddu okkur og flugu heim til Íslands.
Nú var uppi talsverð spenna og óvissa um framhaldið því enginn vissi hvert ferðinni var heitið frá Mayagüez. Þar var engan flutning að fá svo nú var spennandi að sjá hvert leiðin lægi næst. Ýmsar kenningar voru á lofti sem flestar snerust um austurströnd Bandaríkjanna eða Evrópu. Ég held að flestir hafi orðið steinhissa þegar tilkynnt var að nú skyldi siglt skáhallt suður eftir Atlantshafinu, áleiðis til sunnanverðrar Afríku. Þangað skröltum við með tómt skip, þriggja vikna siglingu, takk fyrir.
Ekki var mikil tilbreyting á þessari leið en þó var þetta að mörgu leyti rólegt og gott líf. Við sigldum til suðausturs frá Puerto Rico og sáum land þegar við sigldum á milli eyjanna Martinique og St. Lucia, austast í Karíbahafi. Eftir það var eini félagsskapur okkar þrír fuglar af albatross-ætt, en þeir fylgdu okkur alla leið yfir hafið og hurfu ekki fyrr en við vorum rétt ókomnir til Afríku. Þetta voru stórir og glæsilegir fuglar með mikið vænghaf, örugglega um eða yfir tveir metrar hjá þeim stærsta, og gátu svifið tímunum saman án þess að hreyfa vængina. Ég hafði á tilfinningunni að allar matarleifar sem ég henti í hafið lentu í goggum þessara ferðafélaga. Við Siggi áttum það til á þessari siglingu að stelast í matarbúrið á kvöldin og ná okkur í dósir með niðursoðnum ávöxtum. Þá snæddum við uppi á efra dekki og spjölluðum saman meðan sólin settist og eldingarnar hófust úti við sjóndeildarhringinn.
Loks birtist lágreist sandströnd Suðvestur-Afríku framundan og upp úr miðri auðninni risu hafnarmannvirkin í bænum Walvis Bay – Hvalaflóa. Þetta svæði sem nú heitir Namibía var áður þýsk nýlenda en í lok seinni heimsstyrjaldar tóku yfirvöld í Suður-Afríku landið að sér sem „verndarsvæði“ í vaxandi blóra við vilja alþjóðasamfélagsins, þar á meðal Sameinuðu þjóðanna. Walvis Bay var eiginlega eina höfnin á þessari eyðimerkurströnd og þess vegna hafði stjórnin í Pretoríu innlimað bæinn og nánasta umhverfi hans í Suður-Afríku. Á svæðinu ríkti því apartheid í allri sinni dýrð.
Þarna dvöldum við í rúma viku og fylgdumst með hafnarverkamönnum tína túnfiskinn ofan í lestarnar, að þessu sinni úr spænskum togurum sem greinilega stunduðu ábatasamar veiðar undan ströndum landsins. Þetta var löngu áður en Íslendingar fóru að kenna Namibíumönnum að veiða fisk á nútímavísu. Munurinn var aðallega sá að spænsku skipin voru stærri en þau amerísku og öðruvísi í laginu. Einnig voru hafnarverkamennirnir verulega frábrugðnir þeim perúönsku. Þeir voru af Zúlú-ættum, afar hávaxnir og grannir og mjög dökkir á hörund. Ósköp kurteisir og þægilegir, það litla sem ég hafði af þeim að segja. Einhvern daginn var ég að henda matarleifum og sá aumur á soltnum hafnarverkamanni, gaf honum bita af því sem átti hvort eð var að henda. Hann þakkaði fyrir sig og hvarf, en skömmu síðar fylltist dekkið fyrir framan eldhúsið af kollegum hans og ég varð að loka eldhúsdyrunum, annars hefðu þeir klárað vistirnar.
Allt var líka með öðrum blæ í bænum Walvis Bay. Þetta var ekki ósvipað hollenskum eða þýskum smábæ, enda flestir hvítir íbúar staðarins Búar, afkomendur hollenskra innflytjenda sem töluðu afrikaans, mál sem er náskylt flæmsku eða hollensku. Aðskilnaðarstefnan var tekin mjög alvarlega í þessum bæ. Til dæmis var íbúatalan gefin þannig upp að hvítir íbúar voru um 3.000, en aðrir kynþættir voru ekki taldir, hvað þá skráðir í opinber skjöl. Þeir bjuggu líka í eigin hverfi eða þorpi nokkurn spöl frá hvíta bæjarhlutanum. Blökkumenn þurftu að vanda sig við að villast ekki inn á yfirráðasvæði hvítra í miðbænum. Til dæmis sat ég einu sinni inni á kaffiteríu við aðalgötuna og varð var við einhverja háreysti. Ég leit í kringum mig og sá að gestir kaffistofunnar, langflestir hvítir karlmenn, horfðu allir í átt að dyrunum og gáfu frá sér reiðihljóð af ýmsu tagi. Ástæðan var sú að rétt innan við dyrnar stóð blökkumaður, greinilega þangað kominn til að ná tali af einum starfsmanna veitingastaðarins sem einnig var blökkumaður. Þeir hvítu héldu áfram þessum hávaða þar til þessi óvelkomni gestur hafði sig á brott.
Þegar við áttum frí sóttum við inn í bæinn en þar var ekki mikið um að vera á kvöldin. Mest vorum við á bar sem tilheyrði hóteli og stóð gegnt áðurnefndri kaffistofu í aðalgötunni. Þar var ræðinn og skemmtilegur vert, að sjálfsögðu hvítur á hörund, en af og til birtist ungur blökkumaður með hrein glös á bakka og hvarf aftur með óhrein glös inn í eldhúsið. Eitthvert kvöldið höfðum við heyrt að í blökkumannahverfinu væri ball í uppsiglingu og spurði þá einn skipverja vertinn hvernig hægt væri að komast þangað. Hann brást reiður við og svaraði: – Þangað skaltu ekki fara. Ef þú gerir það stígurðu ekki fæti hér inn fyrir dyr framar.
Ekkert varð úr þeirri ballferð, en einn daginn fórum við nokkrir í bíltúr út í Namib-eyðimörkina sem umlék bæinn. Það var merkileg ferð, en ekki var ég heillaður af þessu landslagi sem einkenndist af gróðurvana sandöldum svo langt sem augað eygði. Þessi eyðimörk var þó ekki öll þar sem hún var séð því hún reyndist vera einhver gjöfulasta uppspretta demanta sem til er í heiminum. Hér og þar sáum við óslípaða demanta sem voru of litlir til þess að vinna þá, gulgrágrænir eins og sandurinn sem þeir lágu í og ekkert í líkingu við þá glampandi fegurð sem maður tengir við demanta.
Okkur voru sagðar ýmsar sögur af demantasmyglurum og lukkuriddurum sem borið höfðu beinin á Beinagrindaströndinni – Skeleton Coast – norðan við Walvis Bay. Þeir sem sluppu framhjá hákörlunum og komust í gegnum brimið við ströndina urðu gjarnan hitanum og þurrkinum að bráð, eða þeir lentu í skothríð frá varðsveitum demantafyrirtækjanna sem gættu vel að eigum húsbænda sinna.
Stundum er sagt að alls staðar í heiminum sé Íslendinga að finna. Sú var ekki raunin í Walvis Bay, en ekki munaði þó miklu. Eitt kvöldið á hótelbarnum var okkur bent á tvo menn og sagt að þeir væru umsvifamiklir í demantabransanum. Þeir reyndust vera Færeyingar, en ekki gaf ég mig á tal við þá.
Einn daginn var vinur okkar, vertinn á hótelbarnum, sorgmæddur á svip og sagðist verða að loka barnum snemma. Ástæðan var sú að þá um daginn hafði forsætisráðherra Suður-Afríku, Hendrik Verwoerd, verið stunginn til bana af þingverði á þingfundi í Pretoríu. Hvítu mennirnir í Walvis Bay litu á þennan framvörð í apartheid sem leiðtoga sinn og syrgðu hann ákaft.
Heldur var tilbreytingalaust að hanga á hótelbarnum en fátt annað stóð til boða í þessu plássi. Þarna hélt ég upp á 16 ára afmælið mitt en það er mér ekki minnisstætt. Við vorum farnir að hlakka til þess dags þegar Zúlú-mennirnir lykju við að tína túnfiskinn um borð og loks rann hann upp. Kvöldið áður kvöddum við vertinn á barnum, en þegar ég ætlaði að taka í höndina á unga blökkumanninum sem hafði verið þarna allan tímann og brosað fallega til okkar sendi vertinn hann strax inn í eldhús og sagði við mig með áhersluþunga: – Never shake hands with niggers!
Við kvöddum þetta sérkennilega samfélag og héldum í átt til nágrannaríkisins Angóla. Þegar við vorum búin að sigla í uþb. klukkutíma átti ég leið upp í brú til að hitta stýrimanninn á vakt. Ég gekk framhjá dyrunum að klefa 1. stýrimanns og tók þá eftir blóðdropum á gólfinu. Ég rakti slóðina og sá að hún lá frá dyrum 3. vélstjóra að dyrum stýrimannsins og aftur til baka. Ég hljóp upp í brú og lét vita af þessu. Stýrimaðurinn stökk niður en skipinu var snúið til hafnar á ný. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að vélstjórinn hafði reynt að stytta sér aldur með því að skera sig á púls, fengið bakþanka en þegar hann kom að tómum kofanum hjá stýrimanninum ákvað hann að láta þetta hafa sinn gang. Hann var þó enn á lífi þegar að honum var komið og á ytri höfninni í Walvis Bay var hann borinn um borð í lögreglubát sem kom á móti okkur, en við héldum aftur út á sjó. Þetta var það síðasta sem ég frétti af honum en hann mun hafa lifað þetta af.
Það sem þarna var á ferðinni var að þessi ágæti vélstjóri var skápahommi, hann fann fyrir löngun til karlmanna sem hann bældi með sér en hún braust út þegar hann drakk. Eina nóttina vaknaði Siggi við það að hann var kominn inn í klefann til okkar og farinn að þukla á honum. Siggi rak hann út en aðhafðist ekki meira. Þetta spurðist þó út og fyrir vikið einangraðist vélstjórinn, menn sniðgengu hann og vildu ekki hafa hann með þegar farið var í land. Þetta hafði staðið yfir nokkra hríð og á endanum þoldi hann ekki meira og reyndi að fyrirfara sér.
En við héldum áfram eins og ekkert hefði í skorist og komum næst í höfn í bænum Moçamedes, sunnarlega í Angóla (hann heitir nú Namibe), og enn var erindið að sækja túnfisk. Nú voru skipin portúgölsk og þeir sem skipuðu fiskinum út voru blökkumenn en talsvert ólíkir Zúlú-mönnunum í Walvis Bay. Þessir voru af Kaffa-ætt, flestir lágvaxnir og samanreknir, ekki beinvaxnir og mun ljósari á hörund, kaffibrúnir ef svo má segja.
Þótt Angóla væri nýlenda Portúgala og portúgalskur her áberandi í bænum var allur bæjarbragur miklu frjálslegri en í nágrannaríkinu í suðri. Þarna ríkti engin aðskilnaðarstefna eins og maður sá fljótlega. Einn daginn var ég í miðbænum og sá þar nokkra portúgalska hermenn í einkennisbúningum. Einn þeirra tók upp munnhörpu og fór að spila en aðrir í hópnum sungu með og sumir stigu dansspor. Fyrr en varði var kominn hópur af heimamönnum í kringum þá og allir dilluðu sér í mjöðmunum. Þetta var fallegt augnablik í góðu veðri og augljóst að enginn fjandskapur ríkti milli hermanna og heimamanna. Nú er ég ekki að halda því fram að svona hafi þetta alltaf verið í samskiptum heimamanna og nýlenduherranna. Nokkrum árum síðar fóru að berast fréttir af borgarastríðinu í Angóla en það stóð lengi, fyrst milli heimamanna og Portúgala sem drógu sig til baka fljótlega eftir Nellikubyltinguna í Portúgal 1974. Eftir það tóku við langvinn, blóðug og grimmileg átök ættbálka og hópa heimamanna sem létu stórveldin Bandaríkin, Kína og Rússland, að ógleymdum olíu- og demantafélögunum, etja sér saman.
Þarna voru stúlkur, blökkukonur, sem falbuðu sig og margir féllu í þá freistni, þeirra á meðal ég. Það var svo sem allt í lagi, en eftirleikurinn var sá að ég fékk sjúkdóminn sem ég slapp við í Perú og það var lítið gaman.
Meðan við lágum í höfn í Moçamedes fór að bera á því að Birgir háseti sem var samferða okkur Óla frá Íslandi væri farinn að haga sér undarlega. Einn daginn fékk hann frí eftir hádegi, en í stað þess að bregða sér í bæinn tók hann sér stöðu aftast á skipinu og stóð þar grafkyrr fram í myrkur. Að lokinni lestun skipsins var haldið til hafs og stefnan tekin vestur og norður fyrir Afríku. Eftir nokkra daga á sjó var skipið stöðvað og farið að hringsóla um hafið. Í fyrstu vissi maður ekkert hvað var á seyði, en svo kom í ljós að Birgir var horfinn. Fyrst var talið að hann hefði fleygt sér í sjóinn, en eftir alllangan tíma fannst hann vel falinn neðst í vélarrúminu. Eftir þetta var hann settur undir eftirlit stýrimanns, lokaður inni í klefa og gefin einhver lyf þar til við komum í næstu höfn.
Sú höfn var Las Palmas, höfðborg eyjaklasans Kanaríeyja sem laut þá og lýtur enn yfirráðum Spánverja. Skömmu áður höfðum við hins vegar lent í merkilegu náttúrufyrirbæri. Allt í einu fóru torfur af flugfiskum að svífa í kringum skipið. Þetta færðist í aukana og fiskarnir byrjuðu að tínast inn á dekkið. Við reyndum fyrst að fleygja þeim aftur í sjóinn, en fljótlega varð sveimurinn of þéttur svo það varð ekki við neitt ráðið. Þetta stóð í nokkurn tíma en þá var eins og við sigldum út úr torfunni og hásetarnir máttu moka hræjunum í sjóinn og spúla slorið af dekkinu.
Í Las Palmas var gerður stuttur stans til að taka olíu og vistir áður en áfram var haldið til Vigo á Spáni. Sú borg er á Atlantshafsströnd Spánar, rétt við landamæri Portúgals. Þaðan er stór hluti úthafsveiðiflota Spánverja og mikill handagangur í öskjunni. Þar var stoppað í tvo eða þrjá daga og hluta túnfisksins skipað upp. Þarna kvaddi skipstjórinn okkur og söknuðu hans fáir. Við tók Páll Torp 1. stýrimaður, mikill öndvegismaður sem umgekkst alla sem jafningja sína. Hann byrjaði á því að halda sama sið og forverinn og matast einn uppi í skipstjórasvítunni, en eftir einn eða tvo daga gafst hann upp á því og settist aftur í sæti sitt í yfirmannamessanum. Hann sagðist ekki þola einveruna þarna uppi. Þá hætti brytinn að elda sérstaklega fyrir hann og gerði mest lítið eftir þetta annað en að þvælast fyrir okkur í eldhúsinu, gjarnan sætkenndur.
Í Vigo lærðum við þann sið að borða ólívur með drykkjum, þær voru bornar á borð á öllum börum og þóttu eðlilegur hluti drykkjunnar. Þarna varð ég aðdáandi grænna ólíva sem ég set mig aldrei úr færi um að borða.
Frá Vigo var siglt meðfram norðurströnd Spánar og til borgarinnar San Sebastian sem seinna varð áberandi í fréttum sem höfuðborg Baskahéraðs. Við lögðumst að bryggju í litlu þorpi sem hét Pasajes þar sem var mikil skipasmíðastöð og önnur starfsemi sem tengdist sjávarútvegi. Þar var restinni af túnfiskinum skipað upp. Nú sýnist mér á kortum að þetta þorp sé runnið inn í borgina og orðið hverfi í San Sebastian.
Og þarna lauk starfi mínu um borð í því góða skipi Hofsjökli. Við Siggi fórum ásamt nokkrum fleirum fljúgandi til Íslands með viðkomu í París og Lúxemborg, en þar voru höfuðstöðvar Loftleiða á meginlandi Evrópu um langt árabil. Viðburðaríku sumri var lokið og við tók Loftskeytaskólinn. Þar var ég fram að áramótum en gafst þá upp á því að verða sjómaður, enda vinirnir flestir komnir í menntó. Ég fór þó aftur til sjós eftir áramót, að þessu sinni á strandferðaskipinu Esju. Haustið 1967 settist ég á skólabekk í MR, ríkur af reynslu, en oftast blankur að öðru leyti.
Og hvað lærði ég svo á þessu? Ég veit það ekki. Og þó. Ég held ég hafi tileinkað mér ákveðna víðsýni og umburðarlyndi. Ég kynntist alls konar fólki sem bjó við misjöfn kjör. Sumir voru fátækir en brostu til manns. Aðrir voru betur stæðir en pældu mest í því að ráðskast með allt og alla í kringum sig. Svo ekki sé minnst á hvítu aðskilnaðarsinnana í Suðvestur-Afríku, þá gat ég aldrei skilið, hvorki þá né síðar. Í mínum huga hefur húðlitur aldrei skipt neinu máli, fólk er bara fólk.
Yfirlit yfir ferðalögin:
1. ferð í júlí 1962– Vestmannaeyjar – Danmörk (Esbjerg) – England (Grimsby, Cleethorpes) – Vestmannaeyjar
2. ferð í júlí/ágúst 1964– Færeyjar (Þórshöfn, Klakksvík, Trángisvogur) – Danmörk (Kaupmannahöfn) – Austur-Þýskaland (Lestarferð með viðkomu í Berlín) – Tékkóslóvakía (Tékkland og Slóvakía) – Austur-Þýskaland – Danmörk – Færeyjar
3. ferð í júní-október 1966– Skotland (Glasgow) – Írland (Dublin, Cork) – Bandaríkin (New Ark, New York (Brooklyn), Savannah) – Panama (Colón, Skurðurinn) – Perú (Coishco/Chimbote) – Ekvador (Manta) – Panama – Puerto Rico (Mayagüez) – Suðvestur-Afríka, nú Namibía (Walvis Bay) – Angóla (Moçamedes, nú Namibe) – Kanaríeyjar (Las Palmas de Gran Canarias) – Spánn (Vigo, Pasajes, San Sebastian) – Frakkland (París) – Lúxemborg