Það er miðevrópsk rómantík á dagskrá Dómkórsins á Tónlistardögum Dómkirkjunnar haustið 2009. Eins og vanalega, myndu sumir segja, enda hefur Brahms verið tíður gestur á tónleikum kórsins. Hitt tónskáldið hefur ekki verið áður á dagskrá þótt kórinn hafi sungið nokkuð af tékkneskri tónlist. Aðalverk hausttónleikanna að þessu sinni er Messa í D-dúrópus 86 eftir Antonín Dvořak, samin árið 1887, skömmu áður en tónskáldið hélt á vit ævintýranna í Ameríku. Áður en það hljómar flytur kórinn mótettuna Fest- und Gedenksprücheópus 109 eftir JohannesBrahms.

Það er í sjálfu sér vel til fallið að leiða saman þessa tvo meistara rómantíkurinnar. Þeir þekktust ágætlega og Brahms varð til þess að ryðja brautina fyrir Dvořak þegar sá síðarnefndi leitaði út fyrir landsteinana.

Ákall um samstöðu

Mótettuformið er ævafornt og var mikið notað fram eftir öldum. Bach samdi ógrynnin öll af mótettum en að honum gengnum var eins og allt púður væri úr þessu formi, vinsældir þess fjöruðu út. Rúmri öld seinna tóku tónskáld rómantísku stefnunnar upp þráðinn, þeirra á meðal Brahms. Hann greip til þessa forms þegar hann var gerður að heiðursborgara í Hamborg árið 1889 og þurfti að þakka fyrir sig. Það gerði hann með því að færa hamborgurum Fest- und Gedenkensprüche, mótettu í þremur þáttum fyrir átta radda kór, án undirleiks. 

Jóhannes Brahms

Textann sækir Brahms til Biblíunnar og eins og hans var von og vísa blandaði hann saman textum héðan og þaðan. Í fyrsta og þriðja kafla er að finna vers úr Gamla testamentinu þar sem brýnt er fyrir Gyðingum að treysta guði, varðveita sálu sína og gleyma ekki sögu þjóðarinnar, þá muni herrann veita þeim kraft og frið. Í öðrum kafla eru hins vegar tvö vers úr Lúkasarguðspjalli Nýja testamentisins:

Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á…(Lúkas 11.22)

En:

Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús.(Lúkas 11.17)

Notkun Brahms á þessum versum hefur verið túlkuð á þann veg að þar brjótist út þjóðernisást Brahms, hann sé að brýna Þjóðverja til að standa saman og verja höll sína. Svo getur verið að hér hafi sú tilviljun ráðið för að vers Lúkasar hafi einfaldlega verið ritningarstaður dagsins þegar Hamborg átti afmæli. Hver veit, en hér er textinn á frummálinu:

1.

Unsere Väter, hofften auf dich;

und da sie hofften, halfst du ihnen aus.

Zu dir schrien sie, und wurden errettet,

sie hofften auf dich und wurden nicht zu Schanden.

Der Herr wird seinem Volk Kraft geben,

der Herr wird sein Volk segnen mit Frieden.

2.

Wenn ein starker Gewappneter seinen Palast bewahret

so bleibet das Seine mit Frieden. Aber:

Ein jeglich Reich, so es mit ihm selbst uneins wird,

das wird wüste, und ein Haus fället über das andere.

3.

Wo ist ein so herrlich Volk, 

zu dem Götter also nahe sich tun,

als der Herr, unser Gott, so oft wir ihn anrufen.

Hütte dich nur und bewahre deine Seele wohl,

daß du nicht vergessest der Gesichte,

die deine Augen gesehen haben,

und daß sie nicht aus deinem Herzen 

komme alle dein Leben lang.

Und sollt deinen Kindern und Kinders kindern kund tun.

Amen.

Bæheimskur vígslusöngur

Messa Dvořaks er allt annars eðlis, þótt hún sé aðeins tveimur árum eldri en mótetta Brahms. Þar er fylgt ströngu messuformi í sex hefðbundnum köflum: Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus, Benedictus og Agnus Dei. Messa í D-dúr er upphaflega samin fyrir kór, einsöngvara og orgel og í þeim búningi er hún flutt að þessu sinni. 

Lužany-kastali í Bæheimi

Messan er samin í tilefni af vígslu einkakapellu í Lužany-kastala sem einn þekktasti arkitekt Tékka, Josef Hlávka, var að endurreisa í vestanverðum Bæheimi, skammt frá þýsku landamærunum. Hlávka var mikill unnandi lista og vísinda og hefur verið líkt við Alfred Nobel hinn sænska vegna þess að hann stofnaði til verðlauna sem enn eru veitt tékkneskum lista- og vísindamönnum. Þeir Dvořak voru miklir vinir.

Það var þó aðallega fyrir áeggjan eiginkonu Hlávka, Zdeňka Hlávková, sem Dvořak tók að sér að semja tónverk fyrir vígsluna. Frú Hlávková var ágæt söngkona og píanisti og keypti nótur að öllum píanóverkum Dvořaks jafnharðan og þær voru gefnar út. Hún var nemandi hans og þau léku oft fjórhent á píanóið. Fyrir kom að hún tók þátt í að frumflytja verk Dvořaks og það átti við um Messu í D-dúr. Þar söng frúin sópranröddina.

Antonín Dvořak

Þrjár útsetningar

Kapellan í Lužany-kastala mun ekki vera ýkja stór svo því voru takmörk sett hversu umfangsmikið tónverk Dvořak gat samið. Hann lét sér því nægja að semja verk fyrir fjóra söngvara, blandaðan kór og orgel. Verkið samdi hann á fjórum vikum og lauk því 17. júní 1887. Messan var frumflutt undir stjórn tónskáldsins 11. september sama ár. Leikið var á glænýtt orgel, byggt af Karel Eisenhut orgelsmið í Prag.

Skömmu síðar bauðst Dvořak að flytja verkið í bænum Plzeň og fyrir þá tónleika skipti hann orgelinu út fyrir tvö harmóníum, tvo kontrabassa og selló. Fimm árum síðar var Dvořak búinn að taka stefnuna á Bandaríkin og vildi fá þetta verk útgefið hjá enska forlaginu Novello. Stjórnendur þess vildu hins vegar að tónskáldið útsetti messuna fyrir kór og sinfóníuhljómsveit og varð Dvořak við beiðni þeirra. Er sú útgáfa tileinkuð vini hans Josef Hlávka. Var messan frumflutt í þeirri mynd 11. mars 1893 í Crystal Palace í Lundúnum.

Valinn maður í hverju rúmi

Eins og áður segir flytur Dómkórinn verkið í upphaflegri mynd með orgelleik Guðnýjar Einarsdóttur. Einsöngvarar með kórnum verða þau Þóra Einarsdóttirsópran, Sesselja Kristjánsdóttiralt, Gissur Páll Gissurarsontenór og Ágúst Ólafssonbassi. Stjórnandi verður að sjálfsögðu Marteinn H. Friðrikssondómorganisti. Kórinn verður í tveimur stærðum á tónleikunum. Í Messu Dvořaks fær hann liðsstyrk og telur þá tæplega 70 manns. Tónleikarnir verða í Hallgrímskirkju.

Eftirmáli

Þetta voru síðustu stórtónleikar Dómkórsins sem Marteinn H. Friðriksson stjórnaði, en hann lést tæpum tveimur mánuðum síðar, 10. janúar 2010.