Haustið 2012 hélt Dómkórinn tónleika til minningar um stofnanda sinn og kórstjóra um aldarþriðjung, Martein H. Friðriksson. Á dagskrá voru þrjú verk. Skólakór Kársnesskóla flutti Stabat Mater eftir Pergolesi, Dómkórinn flutti Requiem Mozarts en saman fluttu kórarnir upphafsverkið, Ave verum corpus, einnig eftir Mozart. Í tónleikaskrána skrifaði ég stutt minningarorð um Martein og fjallaði um verkin sem sungin voru.

Marteinn H. Friðriksson 1939-2010

Martin Hunger fæddist árið 1939 og ólst upp í bænum Meißen í Saxlandi í Þýskalandi suðaustanverðu. Þar lærði hann á orgel og hélt til framhaldsnáms í Dresden og Leipzig. Um það leyti sem náminu var að ljúka fékk hann tilboð um að koma til Íslands og gerast organisti og kórstjóri í Vestmannaeyjum. Þangað kom hann síðla árs 1964 og sneri ekki aftur til heimalandsins nema í stuttar heimsóknir til ættingja og til að halda tónleika. Hann gerðist íslenskur ríkisborgari og breytti nafni sínu til samræmis við íslenska nafnahefð í Marteinn H. Friðriksson. 

Marteinn varð strax hluti af íslensku tónlistarlífi og auðgaði það með ýmsum hætti. Hann var uppalinn á slóðum Bachs, Brahms og annarra stórmenna tónlistarsögunnar og flutti með sér strauma evrópskrar menningar. Hann átti sér þann draum að verða organisti við stóra gotneska kirkju en þess í stað varð hann organisti við litla hálfdanska dómkirkju í miðbæ Reykjavíkur. Þar var hann skipaður til starfa rétt fyrir jólin 1978 og starfaði í kirkjunni í hartnær aldarþriðjung, eða til dauðadags í janúar 2010.

Þegar Marteinn tók til starfa í Dómkirkjunni tók hann við kirkjukór sem að mestu einskorðaði sig við að syngja í messum og öðrum athöfnum kirkjunnar. Hann langaði að stofna tónleikakór og fór fljótlega að safna liði í hann. Dómkórinn í Reykjavík óx og dafnaði undir handarjaðri hans og varð brátt hluti af fjölskyldu hjónanna og kórstjóranna Marteins og Þórunnar Björnsdóttur. Kórinn fór í margar ferðir utanlands sem innan og söng allt hvað af tók, bæði á torgum og í kirkjum, auk þess sem hann söng inn á nokkra geisladiska og plötur.

Marteinn vann alla tíð ötullega að því að efla veg og virðingu íslenskrar kirkjutónlistar og í því skyni átti hann frumkvæði að því að haldnir yrðu Tónlistardagar Dómkirkjunnar ár hvert undir kjörorðunum Soli Deo Gloria – Guði einum dýrð. Þeir voru haldnir í fyrsta sinn árið 1982 og fagnar Dómkórinn því þrítugsafmæli þessarar ágætu tónlistarhátíðar á þessu hausti. Á hverju ári hefur verið pantað tónverk, stundum fleiri en eitt, oftast fyrir kór en stundum fyrir orgel, og flutt á Tónlistardögum. Öll helstu tónskáld íslensk hafa svarað kalli kórsins og nokkrum sinnum hefur verið leitað til útlendra tónskálda. Þarna er orðið til fjölbreytt safn kirkjutónlistar sem hægt verður að moða úr í framtíðinni.

Marteinn lifði og hrærðist í tónlist alla tíð. Meðfram organistastarfinu kenndi hann í hartnær fjörutíu ár við Tónlistarskólann í Reykjavík og víðar. Hann lék við ótal skírnir, brúðkaup, afmæli, jarðarfarir og stjórnaði fleiri kórum og hljómsveitum en hönd verður fest á. 

Í öllu þessu starfi miðlaði hann kunnáttu sinni og áhuga af elsku og örlæti sem við félagar í Dómkórnum bárum gæfu til að njóta. Fyrir það þökkum við með þessum tónleikum.

Þröstur Haraldsson

Stabat Mater eftir Pergolesi

Stabat Mater Dolorosa er heitið á sorgarkvæði frá 13. öld og fjallar um hryggð Maríu guðsmóður þar sem hún fylgist með þjáningu sonar síns á krossinum. Er þetta kvæði gjarnan sungið á föstudaginn langa í kaþólskum kirkjum. Kvæðið er eignað Fransiskusarmunkinum Jacopone da Todi. Ýmsir hafa samið tónlist við það en Skólakór Kársness syngur tónverk Giovannis Battista Pergolesi. Hann var ítalskt tónskáld á fyrrihluta 18. aldar og meðal verka hans er einnig ópera sem talin er marka upphaf opera buffa-gamanóperanna.

Kórinn flytur hefðbundna útsetningu verksins og nýtur við það stuðnings Sigrúnar Hjálmtýsdóttur sóprans og Sesselju Kristjánsdóttur mezzósóprans, auk hljómsveitar þar sem Una Sveinbjarnardóttir er konsertmeistari. Kórinn flutti þetta verk fyrir allnokkrum árum á tónleikum Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju.

Sálumessa og svanasöngur Mozarts

Þótt ýmislegt sé á reiki um tilurð Sálumessu Mozartser ljóst að verkið er það síðasta sem hann samdi og að líkindum voru fyrstu átta taktarnir í Lacrimosa svanasöngur hins mikla meistara. Það er vel við hæfi því Sálumessan öll og þó sér í lagi Lacrimosa er eitthvert fegursta verk samanlagðra tónbókmenntanna. Slík er fegurðin að hún yfirgefur hið jarðneska og samsamast hærri tilveru, eins og menn hafa ímyndað sér að sé hlutskipti sálu hins framliðna.

Margir hafa reynt að gera sér grein fyrir hinstu dögum hérvistar Wolfgangs Amadeusar Mozarts en átt í erfiðleikum. Þeir eru hjúpaðir leynd og um þá sagðar goðsagnir. Hagsmunatogið hefur ekki verið minna þá en nú, ekkjuna skorti lifibrauð, tónlistarfrömuðir áttu harma að hefna – ekki síst tónskáldið Salieri sem í frægri kvikmynd Milosar Formans kallar sig verndarengil meðalmennskunnar – og yfir þessu öllu vomaði von Walsegg greifi sem ætlaði víst að eigna sér verkið og láta flytja það í minningu eiginkonu sinnar.

Hver gerði hvað?

Þó er talið nokkuð ljóst að Mozart entist ekki örendið nema fram í níunda hluta af þeim fimmtán sem verkið er samsett úr. Hann byrjaði á því að semja fyrstu þrjá kaflana – Requiem, Kyrie og Sequenz – en sá síðastnefndi skiptist í sex þætti: Dies irae, Tuba mirum, Rex tremendae, Recordare, Confutatis og Lacrimosa. Þann síðasta geymdi tónskáldið og sneri sér að fjórða kaflanum, Offertorium, með undirköflunum Domine Jesu og Hostias, en byrjaði svo á að skrifa Lacrimosa, eða segja fyrir um fyrstu átta taktana og hugsanlega eitthvað meira. Gaf svo upp öndina.

Ýmsir hafa tekið að sér að ljúka verkinu, við mismikinn orðstír. Sá sem tók við fyrirmælum Mozarts var tónskáldið Franz Xaver Süßmayr og sú útgáfa sem lífseigust hefur orðið og hér er flutt er að hluta til eignuð honum. Hann lauk við að skrifa út ýmsa parta af fyrri köflum sem Mozart var búinn að móta, samdi sjálfur 5.-7. kafla, Sanctus, Benedictus og Agnus Dei, og tók loks fyrstu tvo kaflana og endurnýtti þá í lokin, að litlu leyti aðlagaða breyttum texta 8. kaflans, Communio/Lux aeterna.

Önnur atrenna

Sálumessan er draumaverkefni hvers kórs sem vill standa undir nafni. Ólíkt mörgum öðrum stórvirkjum eru sólókaflarnir í knappara lagi en hlutverk kórsins þeim mun meira. Fjöldi kóra hefur spreytt sig á því að flytja verkið hér á landi sem í öðrum löndum. Meðal annars hefur Garðar Cortes og Óperukórinn flutt verkið reglulega á minningartónleikum um látna tónlistarmenn sem haldnir hafa verið í Langholtskirkju um nokkurra ára skeið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Dómkórinn flytur Sálumessuna en raunar önnur atrennan sem gerð er að flutningi hennar. Árið 1999 var kórnum boðið að taka þátt í tónlistarhátíð í Prag, höfuðborg Tékklands, en hún var haldin í tilefni af sjötugsafmæli hins ástsæla tékkneska tónskálds Petrs Ebens. Þar söng kórinn á nokkrum tónleikum og um skeið stóð til að hann tæki þátt í flutningi Sálumessu Mozarts ásamt fleiri kórum. Gekk það svo langt að æfingar hófust, en af einhverjum ástæðum var hætt við þátttöku okkar í tónleikunum.

Það er því viðeigandi að Dómkórinn ljúki verkinu sem hófst hjá Marteini fyrir þrettán árum og flytji þessa perlu í minningu hans.