segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar um tillögur flokksins um lækkun matarverðs

Bændablaðið 10. október 2006

Hér að neðan er viðtal sem ég tók haustið 2006 við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi formann Samfylkingarinnar, og birti í fyrsta tölublaði Bændablaðsins sem ég ritstýrði. Forsaga þess er sú að í blaðinu á undan var uppsláttur á forsíðu um hugmyndir sem fram höfðu komið innan Samfylkingarinnar og bændaforystunni þóttu alls ekki góðar (sjá PDF neðst í færslu). Engin tilraun var gerð til að leita eftir afstöðu forystumanna flokksins. Ég var þá í vinnu sem blaðamaður og þegar ég fór heim á föstudegi vissi ég ekki af þessari grein. Hún var sett inn um helgina, en blaðið fór þá í prentun á mánudagsmorgni.

Matvælaverðið hefur verið í brennidepli undanfarnar vikur og mánuði í kjölfar skýrslu Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra. Stjórnmálaflokkarnir hafa verið að blanda sér í umræðuna og Samfylkingin kynnti sínar tillögur fyrir tveimur vikum. Af þeim varð þónokkur hvellur og formaður flokksins deildi við forystumenn bænda í nokkra daga í fjölmiðlum. Síðan hefur vinda heldur lægt en umræðan mun eflaust blossa upp að nýju þegar tillögur ríkisstjórnarinnar koma fram. 

Bændablaðinu þótti rétt að taka forystumenn flokkanna tali um matarverðið og úr því að Samfylkingin reið á vaðið varð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins fyrsti viðmælandi blaðsins. Við munum ræða við aðra forystumenn flokkanna í næstu blöðum. En hvað þótti Ingibjörgu Sólrúnu um þær viðtökur sem tillögur hennar fengu hjá bændaforystunni?

Hún segist ekki hafa verið alveg sátt við viðbrögð bændaforystunnar. „Þeir féllu í gamla gryfju sem er sú að búa ævinlega til óvini bænda úr þeim sem setja fram hugmyndir um að breyta landbúnaðarstefnunni og innleiða atvinnufrelsi í landbúnaði eins og gert hefur verið í hverri atvinnugreininni á fætur annarri á undanförnum áratugum. Það er alið á óþarfa ótta og tortryggni meðal bænda í garð slíks fólks. Mér verður stundum hugsað til Gylfa Þ. Gíslasonar í þessu sambandi. Ef menn hefðu hlustað á hann fyrir nokkrum áratugum og byrjað að feta þá slóð sem hann lagði til værum við líklega betur stödd núna. Þess í stað voru gerð hróp að honum svo hann gat varla látið sjá sig utan höfuðborgarsvæðisins. 

Þeir sem tala fyrir breyttri stefnu eru hvorki að gera bændur ábyrga fyrir núverandi stefnu né heldur vöruverðinu. Þar er við stjórnvöld að sakast, ekki bændur, og óþarfi að leggjast í vörn þegar enginn er að sækja að þeim. Við í Samfylkingunni gerum okkur mjög vel grein fyrir því að bændur eru ekki ofsælir af sínum kjörum, Okkar barátta snýst um að bæta kerfið til hagsbóta fyrir bæði bændur og neytendur.“

Mönnum þóttu tillögur Samfylkingarinnar um 200.000 króna lækkun matarreikningsins hjá meðalfjölskyldunni á ári heldur djarfar, hvernig hyggist þið ná því marki?

„Þetta er samsett leið þar sem virðisaukaskatturinn verður lækkaður um helming, sem skilar um 70 þús. á mánuði og vörugjöldin og tollarnir teknir af sem samtals skilar um 110 þús. kr. á mánuði. Þessu til viðbótar teljum við og margir fleiri að í kjölfar slíkra aðgerða muni verð á ýmsum vörum lækka sem nú er óeðlilega hátt vegna tollanna. Með þessu móti teljum við að hægt sé að lækka matarverð um 30% til samræmis við Norðurlöndin. Að hluta til kemur þessi lækkun líka úr álagningu verslunarinnar, því hún leggst á lægra verð en áður. Þetta myndi einnig auka samkeppni sem hvetur innflytjendur til að leita hagstæðari tilboða.“

Viljum gera aðlögunarsamning

Mönnum brá einnig við tímasetningarnar sem nefndar voru í stefnuplagginu, að tollverndin verði afnumin að hálfu um mitt næsta ár en að fullu 1. júlí 2008.

„Já, við viljum ná niður matarverðinu með þessum þríþættu aðgerðum og taka fyrsta skrefið í því að afnema tollverndina á næsta ári. Við gerum okkur hins vegar mjög vel grein fyrir því að það er ekki hægt að hleypa þessu í gegn án þess að grípa til mótvægisaðgerða í þágu bænda. Við viljum því gera aðlögunarsamning við bændur líkt og gert var þegar tollar voru felldir niður á ákveðnum grænmetistegundum. Það er reyndar athyglisvert að í kjölfar þeirrar breytingar lækkaði verð á öllu grænmeti, líka því sem ekki var með tolla, og framleiðslan jókst. Varðandi seinni hlutann af tollalækkuninni þá viljum við hafa fullt samráð við samtök bænda og neytenda um það hvernig að því verði staðið. Það var m.a. niðurstaða okkar eftir ágætan samráðsfund með bændaforystunni.“

En eru stjórnvöldum ekki settar þröngar skorður við að styðja landbúnað meira en gert er?

„Nei, við megum að vísu ekki taka upp nýja styrki eða beingreiðslur sem eru framleiðslutengdar. En það má taka upp ýmiss konar stuðning sem ekki tengist framleiðslunni, svo sem að greiða fyrir hektara lands, eða miða greiðslur við fjölda gripa. Það má borga bændum fyrir landvörslu, veita styrki til ferðaþjónustu og svo framvegis. Það er oft talað um að við þurfum að bíða eftir WTO-samningunum en sú samningalota er búin. Þar gerist ekkert fyrr en kominn er nýr forseti í Bandaríkjunum.Við eigum heldur ekki að sitja og bíða eftir alþjóðlegum samningum. Við erum frjáls að því að setja á tímabundna aðlögunarstyrki, svo fremi þeir séu ekki framleiðslutengdir. Ég er sannfærð um að með beinum, grænum styrkjum til bænda megi tryggja þeim sömu eða svipaðar tekjur og þeir nú hafa en með mun minni tilkostnaði.“

Hvað eigið þið við með því að segjast vilja auka atvinnufrelsi bænda?

„Í núverandi kerfi hafa framleiðslutengdu styrkirnir veruleg áhrif á það hvaða framleiðslugreinar bændur velja en valið ræðst ekki öðru fremur af landkostum, aðstæðum hvers bónda eða eftirspurn neytenda. Við viljum draga úr þessari stýringu. Það er heldur ekki hægt að tala um atvinnufrelsi í grein sem sætir opinberri verðlagningu af hálfu sérstakrar verðlagsnefndar eins og er í mjólkinni. Þá má nefna að samkeppnislögin gilda ekki um landbúnað og fyrirtæki geta sameinast, haft samráð og verkaskiptingu að vild án þess að samkeppnisyfirvöld hafi neitt um það að segja.“ 

 

Kerfið þjónar hvorki bændum né landsbyggðinni

Hafið þið ekki áhyggjur af landsbyggðinni og því fólki sem starfar við að þjónusta landbúnaðinn?

„Það var gott þú spurðir að þessu því landbúnaðarkerfið sem við búum við hefur ekki getað hamlað gegn stöðugum flutningi fólks úr sveitum landsins. Það hefur heldur ekki tryggt bændum sömu launahækkanir og aðrar stéttir hafa notið. Kerfið hefur því hvorki þjónað bændum né sveitum landsins. Við teljum að ef bændur væru ekki svona bundnir af framleiðslustyrkjum heldur gætu bryddað upp á alls kyns nýjungum í sínum rekstri með stuðningi opinberra stjórnvalda væru meiri líkur á að fólk sæktist eftir því að setjast að í sveitunum. Við þurfum hins vegar að bregðast skjótt við því margar bestu bújarðirnar eru að falla úr landbúnaðarnotum. Auðmenn héðan af höfuðborgarsvæðinu eru að kaupa þær og landbúnaðarstefnan gerir bændum ekki kleift að reka nógu arðbæran landbúnað til þess að keppa við þá um landið.“

Samfylkingin talar um að hafa samráð við bændur, sérðu fram á að þið getið haft gott samráð við bændur eftir það sem á gekk á dögunum?

„Já, ég er sannfærð um að við getum það og það mun ekki standa á okkur. Það eru fjölmörg mál sem við viljum leysa í samvinnu við bændur eins og hvernig megi ná niður fóðurverði, raforkuverði, flutningsverði o.fl. sem leggst þungt á bændur. Við viljum tryggja hag bænda og hinna dreifðu byggða. Við teljum hins vegar alltaf betra að hafa frumkvæði í stað þess að láta sér nægja að bregðast við. Mín skoðun er sú að bændur eigi að reyna að stjórna því breytingaferli sem verður ekki umflúið í stað þess að lenda í vörn og verða að láta breytingarnar yfir sig ganga. Ég dreg enga dul á það að ég hef haldið því fram að að bændaforystan sé í kæfandi faðmlagi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks en báðir þessir flokkar láta alltaf eins og þeir beri hagsmuni bænda sérstaklega fyrir brjósti. Sannleikurinn er hins vegar sá að bændur eiga miklu betra skilið en þau kröppu kjör sem núverandi kerfi þessara flokka hefur fært mörgum þeirra.“

Hvernig sérðu fyrir þér að hlutirnir gangi í vetur, verður matvælaverðið kosningamál?

„Matvælaverðið verður örugglega í umræðunni í vetur. Maður skynjar óánægju fólks með að þurfa að borga svona mikið fyrir matinn. Við í Samfylkingunni höfum fengið mikil og jákvæð viðbrögð frá neytendum. Ég fullyrði hins vegar að bændur eiga góða bandamenn meðal almennra neytenda sem vilja veg þeirra sem mestan. En almenningur vill sjá breytingar, það finnur fyrir því á degi hverjum þegar það fer út í búð og hvetur okkur til þess að halda okkar striki. Við höldum ótrauð áfram okkar baráttu í góðri samvinnu við bændur og neytendur,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar.