Þjóðviljinn 8. júní 1975

Meðan íslenskur poppheimur er í óða önn að stokka sjálfan sig upp læðist lítill flokkur með það tignarlega heiti Spilverk þjóðanna inn um bakdyrnar og tekur að hasla sér völl. Þetta fyrirbæri hefur haldið nokkra tónleika að undanförnu hér í borginni og undirritaður getur borið um að viðtökurnar voru geysigóðar.

Það hefur ekki farið mikið fyrir frumleíka í framleiðslu íslenskra poppara undanfarin misseri. Hún sker sig ekki mikið úr því sem gert er í nágrannalöndunum. Því vekur það fögnuð að heyra eitthvað nýtt og ferskt sem ekki er bara framhald af þeirri lognmollu sem ríkir.

Bara spilverksmúsík

Spilverk þjóðanna vekur slíkan fögnuð. Það er skipað þremur mönnum, þeim Agli Ólafssyni, Valgeiri Guðjónssyni og Sigurði Bjólu Garðarssyni. Þessir þrír skiptast á um að syngja og leika á hin ýmsu hljóðfæri — gítara, píanó, kontrabassa, slagverk, o. fl. — sem öll eiga það sammerkt að þarfnast ekki rafmagns. Öll tónlist og textar eru frumsamdir. Það er ekki auðvelt að flokka tónlist þeirra félaga. Flest eru lögin róleg og falleg en inn á milli leika þeir svo „eldfjöruga skottísa“ og létt rokklög. — Það er ekki hægt að flokka okkar tónlist sem einhverja ákveðna stefnu innan tónlistarinnar, segja þeir, þetta er bara spilverksmúsík. Að sjálfsögðu hlustum við mikið á tónlist og finnst ýmsir tónlistarmenn góðir en við eigum enga beina fyrirmynd sem við stælum.

Blaðamaður nefnir að honum finnist líkindi með þeim og t.d. Incredible String Band og Tir Na Nog, en þeir hrista hausinn og segjast lítið hafa hlustað á téða flokka.

Þá er sviðsframkoma þeirra ólík því sem maður venst hjá poppurum. Þeir ræða við áheyrendur, segja þeim óspart til syndanna, ef þeir koma ekki rétt fram. — Kunnið þið ekki haga ykkur á konsert? spurði Valgeir eitt sinn sármóðgaður þegar áheyrendur héldu að lagið væri búið og fóru að klappa þegar nokkrir tónar voru eftir. Þeir hefja tónleikana yfirleitt á því aö lesa upp úr dularfullri svartri stílakompu eitthvert lítt skiljanlegt þrugl, lýsingar á samkvæmisleikjum, stuttar smásögur oþh. A tónleikum í Norræna húsinu fyrir hálfum mánuði kynntu þeir eitt lagið (sem reyndar var tileinkað Gunnari Huseby) og gerðu síðan hlé. Lagið léku þeir svo eftir hlé. — Þetta er yfirleitt alveg óundirbúið, segja þeir, en með tímanum verður þetta eflaust að rútínu.

Ungir menn með námsleiða

En svo við byrjum nú loksins á byrjuninni og tökum hlutina í réttri röð, þá varð Spilverkið til fyrir uþb. tveimur árum. Áður höfðu þeir reyndar oft leikið saman á árshátíðum Menntaskólans við Hamrahlíð og öðrum skemmtunum sama skóla. Þar var vaninn að smala saman nokkrum músíköntum fyrir árshátíðir og láta þá skemmta lýðnum með frumsaminni tónlist. En svo urðu menn stúdentar eins og vera ber fyrir þremur árum.

Valgeir og Sigurður Bjóla fóru í háskóla en brátt gerðust þeir leiðir á skólagöngunni og fóru að sinna sínum áhugamálum sem eru fyrst og fremst tónlist. Einhverju sinni voru þeir í ökuferð og sem þeir óku framhjá MH skaut upp nafninu Spilverk þjóðanna.

Þeir fóru að semja og æfa en lengst af komu þeir hvergi fram nema í skólum. Það var ekki fyrr en nú í maí að þeir léku fyrst fyrir almenning í Stúdentakjallaranum og þá fór að færast fjör í leikinn. Steinar Berg verslunarstjóri í hljómdeild Faco og Ólafur Þórðarson fyrrum Ríó-tríómaður komu að máli við þá og létu í ljós áhuga á plötugerð. Mættu þeir lítilli mótspyrnu og í liðinni viku hófust upptökur í stúdíóinu í Hafnarfirði. — Við verðum með sömu lögin og við höfum leikið á tónleikunum, þe. hráefnið verður það sama en í eitthvað breyttri mynd. Það er ágætt að afgreiða þessi lög með því að setja þau á plötu, spila sig frá þeim, við eigum mikið af óunnu efni sem við getum þá snúið okkur að.

Fyrir nokkru gerðu þeir svo sjónvarpsþátt sem þeir vona að verði sýndur fyrir sumarleyfi sjónvarpsins. — Þátturinn var tekinn upp „life“ eins og það heitir, þe. tónupptakan fór fram um leið og myndatakan. Það var hópur fólks viðstaddur sem tók þátt í gríninu. Þetta verður líklega nokkuð óvenjulegur poppþáttur.

Stefna út fyrir landhelgi

— Hver er svo framtíðarsýn þeirra félaga?

— Við ætlum að reyna að lifa á þessu í nokkur ár. Það er ólíklegt að við verðum enn að eftir svo sem fimm ár, þá er viðbúið að kerfið verði búið að negla okkur einhversstaðar niður pikkfasta, það gerist með alla. En það er lítill markaður fyrir okkar tónlist hérlendis. Það fengist kannski fólk til að hlusta á okkur en þá kemur vandamálið með húsnæðið. Okkar tónlist krefst lítilla sala þar sem hún er ekki rafmögnuð og erfitt að koma því við að rafmagna hana. Norræna húsið er gott og Stúdentakjallarinn en þar fyrir utan er lítið að hafa. Við getum ekki spilað á böllum þar sem hávaðinn er ærandi. Um tíma hugleiddum við að fara út í dansiballaspilerí, en hættum við það, sem betur fer. Við stefnum því að utanferð einhvern tíma. En það verður ekki fyrr en við fáum eitthvað handfast tilboð.

Af hverju enskir textar?

Textar þeirra spilverksmanna eru flestallir á ensku. Af hverju? — Það er náttúrulega þetta klassíska að enska er heimsmál poppsins og svo er öll sú músík sem okkur líkar best flutt á ensku. Kannski er hugsunin sú að það eigi fleiri eftir að hlusta á okkur en Íslendingar. Við höfum gert íslenska texta við lögin en bæði er að þeir vilja verða stífir og klaufalegir og falla oft illa að lögunum og svo að það er erfitt að vera með tvo texta við sama lagið. Þar að auki skilur fólk okkur amk. þeir sem koma og hlusta á okkur.

Það hefur gengið fjöllunum hærra að Spilverk þjóðanna stæði í einhverjum dularfullum tengslum við hulduhljómsveitina Stuðmenn. Við inntum þá félaga eftir þessum tengslum. — Gat nú skeð að þú spyrðir að þessu. Við könnumst ekkert við Stuðmenn og viljum ekkert við þá kannast, segja þeir fýldir á svip. –ÞH